137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[16:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fram kemur hjá hv. þingmanni að menn ætla að setja þetta inn í Bankasýsluna og að það muni kannski allt enda þar. Hann segir að menn selji út stofnféð upp á nýtt. Þá velti ég fyrir mér í ljósi þeirra aðstæðna sem við erum í í dag: Hverjir eru líklegir til þess að geta keypt það? Það er það sem mér finnst að við þurfum að skoða ofan í kjölinn og þess vegna hef ég sagt að við ættum að draga andann og gefa okkur ákveðinn tíma. Eins og fram kemur í greinargerð hjá þessum ágæta manni munu menn meta stöðuna eftir einhvern ákveðinn tíma þegar þeir eru komnir út úr mesta brjálæðinu.

Þess vegna kalla ég eftir því að við skoðum þetta mjög vel vegna þess að ég sé ekki fyrir mér hvernig hitt á að ganga, að vera bara með einn ríkisbanka Íslands. Ég veit alveg hvernig það virkar frá því þegar ég var að byrja í atvinnurekstri og það var ekki gott.

Það er mikilvægt að við munum það því að innan mjög fárra vikna munum við þingmenn á hinu háa Alþingi fá heilu sveitarfélögin, heilu héruðin, inn á borð með vandamál einmitt út af þessum málum. Sum eru reyndar þegar komin inn því að þegar hefur orðið kerfishrun í mörgum byggðum. Það sem ég hræðist mjög mikið er hvort við séum að fórna stærri hagsmunum fyrir minni.

Hins vegar ítreka ég að ég tel að unnið sé að þessum málum með heiðarlegum hætti en það sem skilur okkur fyrst og fremst að hér er pólitísk skoðun okkar, hvernig við eigum að gera það, hvort við eigum að setja þetta allt til ríkisins eða reyna að halda því þar fyrir utan. Þetta snýst fyrst og fremst um það, þetta er pólitískt mál.