137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[16:41]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Þau meginprinsipp sem við sjálfstæðismenn höfum verið að reyna að koma til skila hafa ekki komist nægilega vel til skila sýnist mér. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talaði um hvernig þurfi að styrkja 2. gr. neyðarlaganna til að hægt sé að hjálpa sparisjóðunum. Um það deilir enginn. Ég held að það sem stendur mest út af í þessari umræðu sé hvernig farið er með niðurfærslu á stofnfé. Það er niðurfærslan á stofnfénu sem gerir þetta mál óásættanlegt. Ég fór yfir það í löngu máli áðan, ég held reyndar að hv. þingmaður hafi ekki verið nálægur þá. (ÁI: Sat hér í hliðarsal, hv. þingmaður.) Allt í lagi, ég þakka fyrir þær upplýsingar, hv. þingmaður. Þar kom fram að þetta væru áhyggjurnar, áhyggjurnar væru ekki aðrar og við getum verið sammála um hvernig við þurfum að styrkja 2. gr. neyðarlaganna.

Það sem ég sagði í fyrri ræðu minni var að við megum ekki nota sama prinsipp með stofnfé og hlutafé út af eðli stofnananna. Ef við strokum út stofnfjárhluthafa búum við til svokallaða zombie-banka, eins og þetta er kallað í bankabransanum, og það er enginn tilgangur í því að vera að búa til svoleiðis stofnanir. Þá er miklu hreinlegra að gera upp þessa sparisjóði og þar sem vantar fjármálastarfsemi er bara hægt að breyta þeim í útibú einhvers af ríkisbönkunum. Jafnframt hafa hljómað hér hugmyndir um að hægt sé að ná fram meiri rekstrarhagkvæmni með því að sameina bankana. Það brýtur gegn því grundvallarprinsippi að sparisjóður sé fjármálastofnun sem sér um eitthvert afmarkað landsvæði þar sem upplýsingar myndast sem eru mun betri til ákvarðanatöku en í einhverju miðstýrðu batteríi eins og t.d. í stóru bönkunum. Þess vegna viljum við viðhalda sparisjóðunum.

Ég talaði um í ræðu minni að við eigum ekki að nota sama prinsipp með stofnfé og hlutafé vegna þess að það er tvennt ólíkt. Ég talaði hér um tillögu sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson bætti síðan við og kom með tvær aðrar tillögur eða hugmyndir þannig að það er af nógu að taka. Ég talaði um að stofnfé ætti ekki að verða lægra en einn, að það ætti að setja víkjandi lán inn í sparisjóðina og eins og við vitum samkvæmt reglum um áhættugrunn fyrirtækja virkar víkjandi lán nákvæmlega eins og reiðufé þegar verið er að reikna út CAD-hlutfall þannig að það gengur allt saman upp. Ég sagði líka að ríkið ætti þá forgang á allan arð þangað til þetta víkjandi lán yrði greitt upp og þá færu stofnfjáreigendur að fá eitthvað fyrir sinn snúð.

Mér hefur sýnst að valdhafarnir vilji frekar beina sjónum að því að sölsa bara fyrirtækin og fjármálafyrirtækin þar með undir sig. Þá er hægt að ráða hlutum betur en á einkamarkaðnum sem hefur misheppnast eins herfilega og raun ber vitni að fúnkera, að þetta sé betur komið í höndum ríkisins. Enda er það alveg í samræmi við það sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefði sagt hér fyrir einhverju síðan að eignarrétturinn sé náttúrlega alls ekki heilagur. (ÁI: Í hvaða orð vitnar hv. þingmaður?) Ja, ég vitna í ræðu hans, en þetta gæti verið partur af því öllu saman. (Forseti hringir.) En ég vara við því að hér séu stofnaðir það sem við köllum zombie-banka.