137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[17:15]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Það vakti athygli mína í ræðu hv. þm. Árna Johnsens að hann talaði um menningarhúsið á Dalvík. Ég hef þær upplýsingar að vegna 7. gr. verið sé að íhuga hvort það sé leið til þess að bjarga sparisjóðunum án aðkomu ríkisins að taka til baka þessa gjöf til samfélagsins. Það er eitthvað sem mér skilst að íbúar byggðarlagsins telji að verði betra til þess að bjarga stofnfjáreigendum og sparisjóðnum í samfélaginu að fresta þessari gjöf um einhvern tíma meðan hægt er að koma styrkari fótum undir sparisjóðinn.

Það er því augljóst að þessi grein, þó að við séum ekki einu sinni búin að samþykkja hana endanlega á þinginu, er farin að hafa áhrif á aðgerðir og stefnu sparisjóðanna. Menn óttast það svo að stofnfjáreigendur muni tapa öllu sínu að þeir eru tilbúnir til þess að fresta eða taka til baka þess háttar gjöf sem var einmitt hugsuð til þess að styrkja samfélagið og það félagslíf sem er á þessu svæði. Þeir sjá sér ekki annað fært en hugsanlega að taka hana til baka. Ég vildi bara benda hv. þingmanni á þetta.