137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[17:16]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef rétt er segir þetta í stuttu máli vilja og hug ríkisstjórnar Íslands til almennings á Íslandi, til landsbyggðarinnar. Ef ríkisstjórnin setur gildrur sem neyða menn til þess að draga saman óeðlilega mikið (Gripið fram í: Já.) sýnir það að þessi ríkisstjórn er óbrúkleg, (Gripið fram í.) svo ekki séu notuð önnur og stærri orð.

Hefur einhverjum dottið í hug eða hefur einhver heyrt frá hæstv. ríkisstjórn að hún ætli að hætta við framkvæmdir við menningarhöllina í Reykjavík upp á tugi milljarða króna? Nei. Það skiptir máli að klára það. Þar býr aðallinn, þar býr gáfaða fólkið sem er orðið svo gáfað að það sprænir gáfum en það rennur lítið. Það væri betra að það rynni eitthvað.

Þetta er lítilsvirðing við fólkið í landinu. Ef sparisjóðurinn, sem er að byggja menningarhúsið á Dalvík, neyðist til þess að fara á hnjánum til baka, ef að það þætti brúklegra fyrir byggðarlagið, er það höfuðsynd. En við skulum þá ætlast til að það sé gert í samhengi við það sem verið er að gera fyrir dýrðina á höfuðborgarsvæðinu, sem er magnað og merkilegt verkefni. En það skiptir öllu máli, virðulegi forseti, að það sé samræmi í þessum hlutum og að menn séu ekki með einhver gylliboð og sýndarmennsku sem tuskar til fólkið á landsbyggðinni.