137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[17:20]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir vekur athygli á skrípaleiknum og sýndarmennskunni sem viðgengst hjá hæstv. ríkisstjórn, sýndarmennsku og dekri við fínu taktana í menningu Íslands, við aðalinn sem hefur áskrift að ýmsum hlutum, aðgengi að menningu og iðkun hennar. Það verður ekki sagt um sjómenn á Íslandi að þeir hafi neinn aðgang að því eða landsbyggðarfólk almennt, það er nú bara þannig.

Það segir líka sína sögu að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir glottir og brosir þegar þessi orð eru sögð. Það segir sína sögu um snobbið sem ræður ferð í túlkun þessa fólks sem þykist vera málsvarar almennings á Íslandi en hugsar bara um botninn á sjálfu sér.

Það eru ekki bara 20 milljarðar sem um er að ræða til sparisjóðanna, það eru ekki bara 20 milljarðar sem um er að ræða til menningarhallarinnar í Reykjavík. Það eru 40, líklega 60 milljarðar þegar upp er staðið. Sparisjóðirnir eru akkeri fyrir athafnalífið, fyrir atvinnu, útgerð og fyrirtæki um allt land. Þeir eru lyklarnir að því að hægt sé að halda starfsemi gangandi úti á landsbyggðinni, nýta hráefnin, auðlindirnar og halda áfram til árangurs. Menningarhöllin í Reykjavík er spennandi atriði en keyrum ekki sparisjóðina eða aðrar stofnanir landsbyggðarinnar niður á kostnað stundarhégóma.