137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[17:38]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo sem margt sem ég mundi gjarnan vilja víkja að sem fram kom í ræðu hv. þm. Guðlaugs Þórs en ég ætla að staldra við nokkur atriði:

Í fyrsta lagi vil ég segja að við erum í vondri stöðu og erum að reyna að vinna sem best úr henni. Það væri svo sem voða gaman að fara að rifja upp söguna um hver sagði hvað hvers vegna og af hverju við erum stödd í þessari stöðu en ég held að þetta sé ekki rétti vettvangurinn til þess. Ég held að við ættum frekar að sameinast um að vinna sem allra best út þeirri stöðu sem við erum í.

Fram kom í andsvari mínu fyrir einhverjum mínútum síðan að ég teldi ekki rétt að endurtaka það sem ég sagði við 2. umr. þessa máls. Mér finnst ekkert nýtt hafa komið fram við 3. umr. sem hvetur mig til þess. Þar flutti ég „lærða ræðu“ um afstöðu mína í þessu máli og hvað ég teldi rétt og fór í gegnum öll efnisatriði, lykilatriðin, hvað þetta mál snertir. Ég vil ítreka það, af því að sérstaklega var vikið að því, að ég horfi til þess að úti um land verði stofnfjáreigendur að vera hluti af sparisjóðunum. Það er lykilatriði til að sparisjóðakerfið komist á lappirnar á ný. Við getum horft á það út frá hörðum viðskiptalegum sjónarmiðum, hörðum peningalegum sjónarmiðum, en við getum líka horft á það út frá tilfinningalegum sjónarmiðum og framtíðarvonum sparisjóðanna.

Ég ítreka það líka að sparisjóðir eiga ekki að vera í ríkiseigu og dreg ekkert undan þar og vonandi verða þeir komnir úr ríkiseigu sem allra fyrst. Það veltur á því hvort við náum að byggja upp atvinnulífið í þessu landi og að sjálfstæðismenn komi á þann vagn að við förum í virkilega endurreisn. Þá horfi ég til peningakerfis okkar „og så videre“.