137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[17:40]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmann langar til að segja margt og ég vil gleðja hv. þingmann með því að hann getur gert það, það er ekkert mál. Ég get hjálpað hv. þingmanni að biðja um orðið ef það er eitthvað snúið.

Ef hv. þingmaður hélt svo lærða ræðu áður um málið að hann treystir sér ekki til þess að fara með röksemdirnar aftur held ég að hann sé í ákveðnum vanda. Ef það er svo að við þingmenn getum bara einu sinni sagt hlutina og síðan ekki endurtekið þá — ja, ég held að menn tæmi sig kannski ekki en það væri svolítið sérstakt. Ef við sjálfstæðismenn mættum t.d. bara einu sinni fara yfir ágæti sjálfstæðisstefnunnar, það mál væri síðan tæmt, ef við héldum svo gríðarlega góða ræðu að við teldum okkur ekki geta toppað það, það eru ekki rök í málinu.

Ég er afskaplega ánægður að heyra að hv. þm. Magnús Orri Schram telji að stofnfjáreigendur verði að vera hluti af sparisjóði og að sparisjóðirnir þurfi að fara úr ríkiseigu. Það er bara ofsalega gott og ég er ofsalega ánægður með að hv. þm. Magnús Orri Schram sé þeirrar skoðunar.

En nú er það þannig að hv. þm. Magnús Orri Schram getur bara ráðið þessu. Sem varaformaður nefndarinnar hefur hann öll tök á því að við göngum þannig fram. Það er nefnilega svo magnað að þegar menn eru þingmenn þýðir það ekki að menn séu einhver hluti af einhverri afgreiðslumaskínu, menn hafa áhrif. Hv. þm. Magnús Orri Schram hefur gríðarleg völd og áhrif nákvæmlega í þessu máli og ég hvet hann til þess að nýta sér þau. Ég veit, virðulegi forseti, að hann mun ekki sjá eftir því. Hins vegar er það versta sem getur gerst að hv. þingmaður muni sitja hér eftir og horfa upp á það sem okkur sýnist vera að gerast og þá mun hann sjá eftir því að hafa ekki beitt sér á meðan hann gat það.