137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ítreka að á fundum nefndarinnar kom fram að það eru ekki uppi áform um að skrifa stofnfé niður í núll. Það er viðurkennt af þeim sem með þessi mál fara í fjármálaráðuneyti og Seðlabanka að í stofnfjáreigendunum sem slíkum, jafnvel þótt stofnféð sé orðið einskis virði, felast verðmæti í sjálfu sér, þ.e. að það er til mikils að vinna að halda þeim inni bæði sem stofnfjáreigendum og sem viðskiptamönnum sjóðanna. Þess vegna, jafnvel þó að eiginlegt virði stofnfjárins sé komið niður í núll eða því sem næst, er ekki verið að tala um það heldur þvert á móti reyna að reikna það upp eins og mögulegt er miðað við aðstæður.

Vegna orða hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur um afstöðu sveitarfélaganna í landinu fékk nefndin bæði á fund sinn fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og umsögn frá sambandinu. Þar var hnykkt á ýmsum athugasemdum sem Samband sparisjóða hafði gert og svarað var í nefndaráliti við 2. umr. en lokaniðurstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga var að það væri mikilvægt að lögfesta þetta frumvarp. Þeir sáu ágalla á því en fyrst og fremst skipti máli að lögfesta frumvarpið.