137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[18:16]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Valið sem stofnfjáreigendur í sparisjóðum hafa stendur á milli þess að ríkið komi inn með nýtt stofnfé og að stofnfé þeirra sé fært niður á grundvelli þessara laga og annarra laga, það er annar kosturinn. Hinn kosturinn er að starfsleyfið verði afturkallað. Það eru engir aðrir kostir. Ef svo væri ekki og ef það væru þeir eftirsóttu fjárfestingarkostir sem hv. þingmaður Álfheiður Ingadóttir benti á mundu þeir einfaldlega koma inn með nýtt stofnfé, ríkið þyrfti hvergi nærri að koma, svo einfalt er málið.

Að stofnféð sé ekki fært niður í núll í sparisjóði sem kominn er með neikvætt eigið fé stangast algjörlega á við ummæli varaformanns hv. viðskiptanefndar sem talar um að stofnfé yrði á markaðsverði vegna þess að í sparisjóði þar sem eigið fé er neikvætt er stofnféð einskis virði samkvæmt öllum markaðslögmálum. Það er því einfaldlega ekki rétt miðað við þetta að það verði ekki fært niður í núll ef það verður fært niður. Það rekst því hvað á annars horn í röksemdafærslunni, að þessir zombie-bankar sem verið er að stofna verði eftirsóttir fjárfestingarkostir, það er alrangt og ber vott um grundvallarmisskilning á því um hvað málið fjallar raunverulega.