137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[18:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir framhaldsnefndaráliti til umræðu frá meiri hluta hv. efnahags- og skattanefndar. Málið var hér til meginefnisumfjöllunar við 2. umr. og er í sjálfu sér litlu við það að bæta. Nefndin gerir lítils háttar breytingartillögu sem felst í því að víkja aftur að upphaflegri gerð frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir þeim möguleika að sú bankasýsla sem unnið er að því að setja á fót í landinu geti farið með eignarhaldið í eignaumsýslufélaginu sem á að aðstoða bankana, einkum með ráðgjöf, við að endurskipuleggja fjárhag rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja sem eru í viðskiptum við ríkisbankana eða þær fjármálastofnanir sem ríkið hefur þurft að koma að með einum eða öðrum hætti. Þetta er valkvætt og því ekki nauðsynlegt að frumvarpið um Bankasýsluna nái fram að ganga eða að hún verði stofnuð því að þá stendur eftir sem áður sá möguleiki að hæstv. fjármálaráðherra fer með hlutabréfið og getur skipað í stjórnina. En hann getur eigi að síður framselt hlutabréfið til bankasýslunnar verði hún sett á fót og þá færu stjórnendur hennar eðli málsins samkvæmt með hlutabréfið í eignaumsýslufélaginu á aðalfundi eignaumsýslufélagsins.

Þetta er mál nr. 1 á yfirstandandi þingi og breytingartillöguna er að finna á þskj. 236. Markmið málsins, svo því sé stuttlega lýst, er fyrst og fremst að hraða fjárhagslegri endurskipulagningu atvinnufyrirtækja í landinu. Eins og kunnugt er eru fjölmörg fyrirtæki í landinu sem eiga í miklum skuldavanda en eru rekstrarhæf að öðru leyti og við þetta verkefni eru viðskiptabankarnir að fást á hverjum degi og oft með miklum ágætum. Hér er einkum að því hugað að safna upp sérþekkingu til þess að veita þar um ráðgjöf og sömuleiðis að veita upplýsingar um þennan sérstaka þátt í starfsemi hinna nýju ríkisbanka. Sú breyting sem helst hefur orðið á málinu í meðförum nefndarinnar er annars vegar upplýsingagjöfin og hins vegar hefur verið undirstrikuð sú áhersla meiri hlutans að hugmyndin sé ekki sú að þetta fyrirtæki taki yfir eða ríkisvæði hvert fyrirtækið á fætur öðru heldur aðstoði það fyrst og fremst við að endurskipuleggja fjárhag fyrirtækjanna sem eru í viðskiptum í bönkunum. Að þau verði endurskipulögð hjá bönkunum án þess nokkurn tíma að lánasamningar þeirra eða eignarhald fari til þessa félags þó að enn sé þeim möguleika haldið opnum að það geti gerst í undantekningartilfellum.

Þessar áherslur eru auðvitað fyrst og síðast lagðar vegna þess að það skiptir verulega miklu máli að við höldum sem flestum atvinnufyrirtækjum í einkaeigu úti á hinum frjálsa markaði til þess að nýta það afl og þá atorku sem þar er að finna og að ríkisvaldið þurfi í sem allra fæstum tilfellum að hlutast til um eignarhaldið og þá aðeins tímabundið. Er m.a. gert ráð fyrir því í frumvarpinu að félagið sem hér um ræðir sé sett upp í takmarkaðan tíma eða í liðlega fimm ár og hafi þá lokið starfsemi og hlutverki sínu þannig að þessi afskipti ríkisins eru ekki komin til að vera.