137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[18:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir ágæta ræðu. Hann fór ítarlega í gegnum frumvarpið en mér finnst vanta dálítið á. Hann talaði um valnefnd. Hvernig hafði hann hugsað sér að sú nefnd yrði skipuð, eða hugmyndir Framsóknarflokksins? Ég er eiginlega sammála honum um að það hefði verið betra að hafa einhverja aðila sem tilnefndu þá sem ráðherrann síðan velur úr eða eitthvað slíkt.

Síðan kom hv. þingmaður inn á dálítið merkilegt atriði sem ég man eftir að hæstv. forsætisráðherra gagnrýndi mjög oft eftir að bankarnir voru einkavæddir og það var upplýsingahuldin sem myndaðist við það. Hv. þingmaður gat um ábyrgð ráðherra og hvernig hún í rauninni hyrfi þegar komið væri eitt stig í viðbót. Hér er einmitt gert ráð fyrir því að fjármálaráðherra sé heimilt að framselja eignarhlutinn til Bankasýslu ríkisins sem hann skipar, en hvað gerist þá með þetta fyrirtæki sem er orðið dótturfyrirtæki Bankasýslunnar? Og hvað gerist t.d. með 6. gr. þar sem talað er um gagnsæi eða að félagið skuli gera efnahags- og skattanefnd grein fyrir störfum sínum og fjármálaráðherra skuli tvisvar á ári gefa þinginu skýrslu, hvað gerist ef það hreinlega gerist ekki? Hvar eru viðurlögin, hvert getur maður snúið sér, hvert getur hv. efnahags- og skattanefnd snúið sér ef hún ætlar að kæra stjórn þessa fyrirtækis fyrir að gera ekki grein fyrir störfum sínum eða ef fjármálaráðherra gefur einhverja mjög þunna skýrslu sem segir ekki neitt? Hvað ætla menn að gera í þeirri stöðu? Þetta finnst mér ekki vera nægilega vel rætt og ég vildi spyrja hv. þingmann hvernig hann sér þetta fyrir sér.