137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[19:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir ágætis yfirferð á frumvarpinu. Hann er búinn að svara því hvernig hann getur hugsað sér að skipa valnefndina en ég deili hins vegar þeim áhyggjum með honum af því að menn skipi þar flokksgæðinga í stjórnir, alveg sama hvaða stjórnmálaflokkur er í stjórn á hverjum tíma, og sporin hræða í því sambandi. (SII: Svo sannarlega.) Svo sannarlega.

Þá dettur mér í hug, af því að hv. þm. Birkir Jón Jónsson er frá Siglufirði, frægt dæmi þaðan, ef ég man rétt, og hann mundi kannski vilja rifja það upp með okkur hvernig var staðið að sölu Síldarverksmiðju ríkisins í tíð Alþýðubandalagsins, ef það hét það þá.

Það sem mig langar líka að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki líka áhyggjur af því að það muni koma enn þá fleiri fyrirtæki inn í þetta „apparat“ þar sem boðaðar hafa verið auknar álögur ríkisstjórnarinnar á atvinnulífið og heimilin.

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að skynsamlegra hefði verið — menn hafa velt upp mörgum spurningum um það, til að mynda varðandi ráðherraábyrgð og þar fram eftir götunum — að fara aðeins hægar í málið. Bankarnir hefðu þá getað séð um málið sjálfir, alla vega fram á haustið þangað til hægt er að leggjast yfir það og skoða það eins og þarf og eins það sem hér hefur komið fram.

Eins langar mig að spyrja hv. þingmann, af því að hann er þingreyndari en ég, hvort það sé ekki sérkennilegt að breytingartillaga sé sett inn í frumvarpið og vísað í, eins og gert hefur verið í þessu tilfelli, að framselja eignarhlutdeild í félaginu til Bankasýslu ríkisins sem enn hefur ekki verið stofnuð og það liggur ekki fyrir hvort hún verður stofnuð á þessu þingi. Hvað finnst honum um það?