137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[19:52]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Það er óþarfi að taka það fram að ég styð að sjálfsögðu það frumvarp sem hér liggur fyrir (Gripið fram í: Af hverju?) og nefndarálit enda er ég þar á. (Gripið fram í: Það eru svipuhöggin.) Hér talar hv. þm. Birkir Jón Jónsson af biturri reynslu, heyri ég [Hlátrasköll í þingsal.] Það er ágætt að hann deilir því með okkur og við skulum sýna því skilning.

Ég ætlaði að koma inn á spurninguna um skipan í stjórn sem öðrum hv. þingmönnum sem hafa talað á undan mér hefur verið tíðrætt um. Því ber ekki að leyna að þetta er eitthvað sem við ræddum mjög ítrekað í nefndinni og töldum öll mjög mikilvægt að skipan stjórnar væri hafin yfir allan vafa um pólitískar ívilnanir. Niðurstaða nefndarinnar var þó sú að það væri mjög mikilvægt að fjármálaráðherra bæri ábyrgð, bæði kom þetta til umræðu varðandi eignaumsýslufélagið og Bankasýsluna, og því væri mikilvægt að hann skipaði í stjórnina. Nú er eðlilegt að hv. þingmenn úr stjórnarandstöðu sem hér hafa talað og horfa upp á þær rústir helmingaskiptareglunnar sem við sitjum í, hafi af þessu töluverðar áhyggjur og ég lái þeim það ekki, enda er þetta alvarlegt mál. Þeir hafa haft ófá orðin um ágæti hæstv. fjármálaráðherra (Gripið fram í.) og það er náttúrlega hlutverk okkar á löggjafarsamkundunni að sýna það aðhald að þarna verði valdir til verka aðilar, menn og konur, sem eru yfir allan vafa hafin en jafnframt sem ráðherra treystir til að fara með ábyrgð hans varðandi endurskipulagningu íslenska bankakerfisins.

Mig langaði líka, áður en ég kem að meginefni mínu, að koma inn á umræðu um eigendastefnu. Ég er algjörlega sammála því að það er mjög mikilvægt að við fáum hér til umfjöllunar eigendastefnu ríkisins sem nú er í mótun, en ég tel að varðandi þetta ákveðna frumvarp þurfum við ekki að hafa áhyggjur því að markmið félagsins sem hér um ræðir er mjög skýrt og má lesa í 1. gr. og stendur óháð því hver eigendastefnan kann að verða.

Þá kem ég að þeim þætti, frú forseti, sem dreif mig í ræðustól og það varðar þá upplýsingaskyldu sem fram kemur í frumvarpinu sem er ákaflega víðtæk. Það er mikil krafa í dag um gegnsæi í meðferð fjármuna og afskrifta sem munu að sjálfsögðu lenda á skattgreiðendum landsins og styðjum við heils hugar, meiri hlutinn, gegnsæi og upplýsingagjöf, og kem ég þá inn á það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal óttaðist, að hér yrðu ekki veittar sæmilegar upplýsingar. Það gæti hent að einhverjum fyndist að ekki þyrfti að veita ætlaðar upplýsingar en slíkt væri hreinlega lögbrot því að það er mjög skýrt kveðið á um það í 6. gr. hvaða upplýsingar fjármálaráðherra á að veita. Ég skal viðurkenna að þeirri sem hér stendur þótti jafnvel nóg um því að við getum spurt okkur — það er ágætt að við skattgreiðendur höfum aðgengi að upplýsingum en er samfélag þar sem ríkið hefur allar upplýsingar tiltækar endilega það samfélag sem við viljum?

Því höfum við komið inn á það í nefndaráliti að það sé mikilvægt varðandi þá reglugerð sem fjármálaráðherra mun gefa út á grundvelli þessa frumvarps að aðilar vinnumarkaðarins hafi þar umsagnarrétt og það nái jafnframt til 5. og 6. gr. þannig að það sé ljóst að þetta var eitthvað sem við töldum mikilvægt.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta frekar, frú forseti, en þakka hv. þingmönnum sem á undan mér hafa talað fyrir hlý orð í garð okkar meiri hlutans í efnahags- og skattanefnd og ég trúi að við munum í framtíðinni eiga jafnánægjulegt og gefandi samstarf og í þessu máli.