137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[19:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Birkir Jón áminnir mig um ábyrgð Samfylkingarinnar, ég hef aldrei skirrst undan ábyrgð Samfylkingarinnar á stjórn þessa lands og stend hér keik ásamt félögum mínum í þeim flokki og ber ábyrgð á endurreisnarstarfi landsins. Umræðuna um Icesave-reikningana skulum við hv. þm. Birkir Jón, frú forseti, taka á þeim vettvangi þegar það mál kemur til 2. umr. í þinginu. (BJJ: Þið voruð ekki viðstödd 1. umr.) Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni, ég var viðstödd í 1. umr. og hann veit það jafn vel og sú sem hér stendur að það má fylgjast með umræðum víðar en í þingsal, eða er ekki svo?

Varðandi ráðherraábyrgðina — ég fjallaði um það, frú forseti, í 1. umr. um Bankasýsluna að ég teldi mikilvægt að eignaumsýslan sem hér um ræðir færi þar undir. Ég tel ekki dregið úr ráðherraábyrgð því að ráðherra ber ábyrgð á stjórn Bankasýslunnar, það er Bankasýslan sem skipar stjórn eignaumsýslunnar og þarna er skýr ábyrgðarlína fyrir ráðherra. Ég held að það sé mikilvægt að Bankasýslan sem mun fara með eignarhald í bönkunum hafi líka forræði yfir eignaumsýslunni sem þarf víðtækar heimildir til þess að fara og sinna markmiðum sínum fram koma í 1. gr.