137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[20:00]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við þurfum að fá það á hreint hér í þessari umræðu, verði þetta frumvarp að lögum og verði þetta opinbera félag sett undir Bankasýsluna, hvaða raunverulegu ábyrgð hæstv. fjármálaráðherra gegni þá. Við skulum setja það upp sem þannig að stjórn Bankasýslunnar muni skipa stjórn þessa opinbera félags og síðan verði það svo að stjórnendur hins opinbera félags brjóta lög eða gera eitthvað sem bara við getum ekki liðið, er hv. þingmaður þá að halda því fram að hæstv. ráðherra ætti að segja af sér vegna þess að aðili sem hann tilnefndi í stjórn Bankasýslunnar tilnefndi annan aðila í stjórn þessa opinbera félags? Er hv. þingmaður að halda því fram? Ég tel alveg augljóst að verið sé að draga úr ráðherraábyrgðinni með þessu allverulega. Við þurfum að fá það á hreint hér í þessari umræðu hvort það sé þá virkilega þannig að gerist menn brotlegir í starfsemi þess opinbera félags þá heyri það undir beina ráðherraábyrgð þó að ráðherrann hafi ekki komið nálægt skipun stjórnar þessa opinbera félags, hvort hv. þingmanni finnist það standast að hæstv. ráðherrar beri þá fulla ábyrgð á öllum störfum þeirrar stjórnar sem hann skipaði ekki.

Ég vil síðan minna hv. þingmann á að í 1. umr. um Icesave-málið töluðum við stjórnarandstæðingar heilt kvöld án þess að Samfylkingin léti sjá sig í salnum fyrir utan hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur sem var við skyldustörf á forsetastóli, ekki einn samfylkingarmaður. Við komum hér upp skipti eftir skipti og kölluðum eftir því að einn samfylkingarmaður væri alla vega til andsvara þannig að hv. þingmaður getur ekki sagt hér að Samfylkingin standi keik og standi fyrir máli sínu í því máli. Samfylkingin hvarf úr þingsalnum þetta kvöld þegar við ræddum um þá stærstu skuldbindingu sem Icesave-samningarnir eru gagnvart íslenskum almenningi. (Forseti hringir.) Það var ekki stoltur flokkur sem var á ferðinni þar þá. (Gripið fram í.)