137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[20:06]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir umræðu um upplýsingagjöf og gegnsæi. Ég held að við hv. þingmaður séum algjörlega sammála um mikilvægi þess að þingið og þjóðin í þeim tilvikum sem það á við hafi gott aðgengi að upplýsingum. Ég held líka að í kjölfar þess hruns sem hér varð í haust hafi komið mjög mikil gagnrýni fram á íslenska stjórnsýslu og á skort á gegnsæi í henni. Ég lít á það sem mitt hlutverk ásamt öðrum stjórnarþingmönnum og þingheimi öllum að vinna að því að setja löggjöf sem er til þess fallin að auka á gegnsæi og upplýsingagjöf til löggjafarvaldsins sem og þjóðarinnar.