137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[20:26]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmanni var tíðrætt um ráðherraábyrgð í ræðu sinni, mig langar aðeins að velta upp minni sýn á það verkefni sem við eigum fyrir höndum bæði hvað snertir eignaumsýslu og svo bankasýslu sem við munum vonandi ræða síðar í kvöld.

Eignaumsýslan mun fara undir Bankasýsluna eins og heimilt verður samkvæmt því lagafrumvarpi sem við ræðum hér. Það þýðir að ráðherra mun væntanlega skipa stjórn Bankasýslunnar, stjórn Bankasýslunnar mun skipa valnefnd og valnefndin mun skipa stjórn eignaumsýslufélagsins, það er kallað armslengd, og við erum þá komin með fjóra hlekki í þessa keðju.

Ég er sammála hv. þingmanni um það að við viljum ekki hafa pólitísk afskipti af þeim málum sem eru inni á borði Bankasýslunnar eða eignaumsýslufélagsins. Hins vegar verðum við að tryggja það að einhver beri ábyrgð á þeim fjármunum sem fara í þessi verkefni hvort sem það er á vettvangi Bankasýslu eða eignaumsýslu. Við erum kannski að tala um á þriðja eða fjórða hundrað milljarða króna sem fara t.d. í endurreisn bankakerfisins. Ég vil geta gripið til þess ráðs, t.d. í þinginu, að geta spurt ráðherra út í einstakar stofnanir sem eru á hans vegum og á hans ábyrgð, þar á meðal hvernig þessum fjármunum er ráðstafað. Frá sjónarmiði upplýsinga tel ég mikilvægt að við getum gert ráðherra ábyrgan, en reynum samt sem áður að hafa sem allra lengst frá framkvæmdarvaldinu þau fyrirtæki eða stofnanir sem koma til með að sýsla með mikilsverðan hluta í atvinnulífi okkar.