137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[20:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir hugrenningar hans og athugasemdir. Þetta er verulega athyglisvert og vitanlega rétt sem kemur fram hjá honum að eignaumsýslan og Bankasýslan munu tengjast órjúfanlegum böndum og það er að mínu viti í sjálfu sér ekki til að bæta málið að bæta einum hlekk enn í völd ráðherrans til þess að stýra og stjórna.

Ég óttast að þrátt fyrir að þarna séu búnir til einhverjir milliliðir þá sé það alltaf svo þegar á reynir, þó svo að ráðherra muni svara fyrir málið, að farið sé fram hjá þessum milliliðum og komið beint til ráðherrans þar sem hann ber jú ábyrgðina á þessu. Ég velti þá fyrir mér varðandi stjórnir almennt í fyrirtækjum sem ríkið á og bankaráð og annað, hvort þessi apparöt verði þá í raun stikkfrí og bendi alltaf aftur fyrir sig, bendi á næsta sem ræður og á endanum bendi menn á ráðherrann, að hann hafi sagt að hlutirnir séu svona og þess háttar.

Það sem mér gremst og ég óttast mest í þessu, hv. þingmaður, er enn þá það — við erum jú að reyna að búa hér til armslengd en við erum að gera það á afar pólitískan hátt með mikilli hættu á því að sú armslengd verði einsleit pólitískt í staðinn fyrir gera það þannig, ef við viljum hafa þessa armslengd, að í stjórnir og ráð verði valið með þeim hætti að menn þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að pólitísk sjónarmið ráði för. Það er einfaldlega það sem ég á við.