137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[20:42]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. formanni efnahags- og skattanefndar, hv. 4. þm. Reykv. n., Helga Hjörvar, fyrir svör hans og bendi á að í 2. gr. stendur, með leyfi frú forseta:

„Fjármálaráðherra fer með eignarhlut ríkisins í félaginu og annast undirbúning þess og stofnun í samráði við viðskiptaráðherra.“

Mér er kunnugt, frú forseti, að í viðskiptanefnd hefur því verið lýst yfir að Bankasýslan muni yfirtaka það félag sem hér um ræðir þannig að menn koma í fullri alvöru með þá breytingartillögu sem lögð er til í framhaldsnefndaráliti hv. efnahags- og skattanefndar í þeirri trú að hún fari með þeim hætti sem gert er. Ég bið hv. þm. Helga Hjörvar, formann efnahags- og skattanefndar, að svara því hvort sá skilningur minn sé ekki réttur.