137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[20:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst aðeins um Bankasýsluna. Það er rétt sem hv. þingmaður vísar til að eftir laganna hljóðan er ekki skylt fyrir Bankasýsluna, ef hún yfirtæki hlutabréfin, að láta valnefndina tilnefna stjórnarmenn. Það væri stjórn Bankasýslunnar í sjálfsvald sett hvort hún nýtti þá leið eða fæli einfaldlega framkvæmdastjóra Bankasýslunnar að mæta á aðalfund og skipa í stjórn með beinum hætti. Ég útskýri þetta vegna þess sem kom fram í máli hv. þingmanns.

Varðandi Bankasýsluna vil ég undirstrika að það er ekki ætlun efnahags- og skattanefndar að grípa með neinum hætti fram fyrir hendur löggjafans. Ef ekki verður af stofnun bankasýslunnar verður þessi valmöguleiki einfaldlega ekki nýttur. Ég vil aðeins draga athyglina að því að í efnahags- og skattanefnd voru athugasemdir fulltrúa minni hlutans, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks bundnar við þann þátt sem við ræðum nú, ég og hv. þingmaður, þ.e. skipan stjórnarinnar. Ég vek athygli á því að það ræðst býsna mikið af því hvort sátt er um hvernig stjórn Bankasýslunnar er skipuð, hvort hér verður sannfæring fyrir því að faglega og rétt sé að þessu staðið. Enn þá er frumvarpið um Bankasýsluna til meðhöndlunar í þinginu og við skulum ekki útiloka að samstaða og sátt náist um með hvaða hætti verður að því máli staðið og þá gæti það skapað sátt og samstöðu um bæði málin í heild sinni því að um aðra efnisþætti en skipan stjórnarinnar var ágæt eining í efnahags- og skattanefnd.