137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[20:45]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir þær útskýringar sem hann kom með. Ég deili hins vegar ekki skoðunum hans á því frumvarpi sem hér liggur fyrir og þekki ekki heldur skoðanir hv. þingmanns á Bankasýslu ríkisins.

Frú forseti. Það hlýtur líka að teljast undarlegt að á milli 2. og 3. umr. sé gerð svo veigamikil breytingartillaga eins og nefndin leggur til, að koma inn með millilið sem hugsanlega getur verið Bankasýsla ríkisins. Við því verður ekki gert, þetta er með þeim hætti. Við höfum rætt mikið um faglega skipan í nefndir og ráð, faglegar skipanir í stjórn þessa fyrirtækis sem og væntanlega Bankasýslu ríkisins, En, frú forseti, hvort heldur það var í tíð fráfarandi ríkisstjórnar eða ríkisstjórnarinnar þar á undan eða flestallra ríkisstjórna sem setið hafa á Íslandi, þar með talið forvera Samfylkingar og Vinstri grænna, Alþýðubandalagsins og Alþýðuflokksins, hefur það tíðkast frá ómunatíð að pólitískar skipanir í nefndir og ráð eru alltaf fyrir hendi. Þær eru jafnóafsakanlegar hjá þessum flokkum og hjá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, Alþýðubandalaginu og Alþýðuflokknum. Pólitískar skipanir með þessum hætti eru aldrei eingöngu á faglegum nótum og verða ekki, því miður, frú forseti.