137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[20:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér stofnun opinbers hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja. Allt er þetta í tengslum við það hrun sem við upplifðum hér og þekkjum, í rauninni er það sem við erum að gera núna aðeins einn anginn af því, við erum að endurskipuleggja fjármálakerfið og fjármálakerfið teygir anga sína víða því að það er eins og einhver sagði, svona olían í hagkerfinu. Og það sem við horfum upp á er það að ýmis fyrirtæki eru beint og óbeint í fanginu á fjármálafyrirtækjunum og fjármálafyrirtækin eru í fanginu á hinu opinbera.

Ég verð að segja eins og er að mér finnst þegar maður skoðar það sem hefur gerst á þessum sumardögum á þinginu — maður áttar sig ekki á því, tíminn líður svo fljótt, en við erum búin að vera hér í tvo mánuði — að þetta sé án nokkurs vafa óskipulagðasti tími sem ég hef starfað á í þinginu, er ég þá ekki að segja að ég sé sligaður af þingreynslu en ég hef þó verið þingmaður í rúmlega sex ár.

Frumvarpið tekur ekki aðeins á hinum ýmsu þáttum eins og nafnið gefur til kynna og kemur fram í 3. gr. en þar er tilgreindur tilgangur félagsins sem er allt frá því að vera ráðgefandi og aðstoða fjármálafyrirtæki sem hlut eiga að máli við fjárhagslega endurskipulagningu skuldsettra atvinnufyrirtækja, að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu skuldsettra atvinnufyrirtækja og annað því tengt, heldur er nú líka komin tillaga sem felur það í sér að þetta mál fari undir Bankasýslu ríkisins. Það er algjörlega vonlaust að ræða þessi mál nema gera það í samhengi. Það sem hefur gerst, og mín tilfinning er sú að þetta sé allt að því tilviljunarkennt og búið að þróast á síðustu dögum, er að við erum komin hingað og það liggur fyrir að meiri hlutinn ætlar að keyra málið í gegn, tók Bankasýsluna með miklu ofbeldi út úr viðskiptanefnd fyrir sólarhring síðan, menn ætla að setja af stað eina stofnun á vegum ríkisins sem mun halda utan um þetta fyrirtæki sem er með víðfeðmt hlutverk, þ.e. þá stofnun sem hér er til umræðu, stofnun um opinbert hlutafélag til að stuðla að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja, og mun hafa alveg gríðarlega mikið umfang og snýr, eins og ég skil það, að hinum ýmsu atvinnufyrirtækjum sem fjármálafyrirtæki þurfa með einum eða öðrum hætti að taka á sökum þess hversu skuldsett þau eru.

Undir Bankasýslunni verða síðan líka hinir þrír stóru viðskiptabankar ef fram fer sem horfir sem mér skilst að allar líkur séu á, og ríkið verði með allan eignarhlutinn í þessum fyrirtækjum, en ég var að vona að hægt væri að skila einhverjum þeirra til kröfuhafanna og þeir kæmu þá beint að rekstri þeirra og væru ekki á ábyrgð ríkisvaldsins. Eins og staðan er núna og eins og þetta hefur verið kynnt mun Bankasýsla ríkisins fara með eignarhlutinn í þessum þrem viðskiptabönkum og ekki bara í þessum þrem bönkum og þessu hlutafélagi sem á að taka almennt á fyrirtækjum í atvinnulífinu heldur líka sparisjóðunum. Hvað þýðir það, virðulegur forseti? Við erum búin að setja lungann af atvinnulífinu á Íslandi í eina stofnun.

Þetta er allt rætt í einhverjum hólfum. Núna ræðum við stofnun þessa opinbera hlutafélags og ef ég skil það rétt hefur tíminn að mestu farið í það hjá nefndinni að ræða úrlausnina, það sem snýr að því fyrirtæki, þangað til á elleftu stundu að það kemur breytingartillaga sem hljómar sakleysislega og gengur út á það að fjármálaráðherra eigi að setja það undir Bankasýsluna, en Bankasýslan er með því í rauninni komin með nokkurn veginn allt atvinnulíf á Íslandi undir sig, ein stofnun með nokkurn veginn allt íslenskt atvinnulíf. Ég hvet menn, virðulegi forseti, til að staldra hér aðeins við.

Er skynsamlegt að haga málum með þessum hætti? Samkeppniseftirlitið hefur komið nokkrum sinnum fyrir viðskiptanefnd bæði út af sparisjóðunum og Bankasýslunni. Hvað leggur Samkeppniseftirlitið áherslu á, ekki bara þegar fulltrúar þess koma sem gestir heldur líka í öllum umsögnum sínum? Það er alltaf sama línan. Og það er sama línan, eftir því sem ég best veit, og er hjá öllum þeim löndum sem eiga í höggi við kreppuna, þ.e. að gefa ekki neitt eftir hvað varðar samkeppnisþáttinn, setja ekki allt undir sama hatt. Af hverju er það? Það er vegna þess að menn vilja ekki brenna sig á sömu mistökum og menn gerðu í kreppunni á þriðja áratugnum. Hvaða mistök gerðu menn þá? Í nafni þess að menn voru í kreppu viku þeir burt hinum ýmsu samkeppnisreglum og ýmsu markmiðum varðandi samkeppni á markaði. Almennt eru menn sammála um að það hafi bæði dýpkað kreppuna og lengt hana.

Ég hef áhyggjur af því, virðulegi forseti, að núna seint á þessari fallegu sumarnótt séum við að fara, í skugga stórra mála, virkilega mikilvægra mála eins og Icesave og annars máls sem ætti alls ekki að vera að ræða á þessum tímapunkti, sem er aðild Íslands að Evrópusambandinu, að renna hérna í gegn með stórhættuleg mál, mál sem ekki fá alvöruumræðu hvorki í nefndum þingsins né í þingsalnum. Ég vek athygli á því að við erum með hvorki meira né minna en allt atvinnulífið hér undir og við ætlum að setja þetta í eina stofnun. Eina sem vantar er að láta heita að þessi stofnun leggi fram á þinginu fimm ára áætlanir. Þá yrðum við algjörlega búin að ná því sem ég vil trúa að enginn Íslendingur vilji fara þó svo að nokkrir Íslendingar og kannski þó nokkuð margir hafi barist fyrir því fyrir nokkrum áratugum síðan.

Einhvern veginn er mín tilfinning sú út af því gríðarlega skipulagsleysi sem er á þinginu, sem er þess eðlis að það er mjög auðvelt að sjá kómísku hliðarnar á því, sem ég veit að t.d. hv. þm. Helgi Hjörvar gerir og af ástæðu, vegna þess í fullri alvöru fresta menn fundi á Alþingi Íslendinga með 40 sekúndna fyrirvara — og þetta er ekkert grín — vegna þess að formaður einhverrar nefndar hringir í forseta þingsins. Og þetta er allt voðalega kómískt og sniðugt. (Gripið fram í.) En það sem er í gangi, alvara málsins er sú að við erum að renna í gegn, í gegnum efnahags- og skattanefnd er verið að renna í gegn þessu frumvarpi, í gegnum viðskiptanefnd er keyrt í gegn bæði sparisjóðafrumvarpið og núna Bankasýslan og eftir nokkra daga, kannski einn dag, kannski þrjá, fjóra daga horfum við upp á það að búið er að setja allt atvinnulífið í eina stofnun. Virðulegi forseti. Guð gefi okkur að þessi stofnun standi sig vel, það er eins gott að svo verði. Í ofanálag á sú stofnun að sjá til þess að eigendastefna ríkisins verði virk, þ.e. að hafa eftirlit með því að henni sé komið í framkvæmd. Eigendastefna ríkisins hefur ekki verið kynnt, það á að kynna hana fyrir þinginu, mér fyndist eðlilegt að láta þingið samþykkja hana en það á að kynna hana fyrir þinginu og það hefur ekki enn verið gert en hún er grunnurinn að Bankasýslu ríkisins.

Það er nýmæli fyrir okkur Íslendinga að hafa eigendastefnu ríkisins en slíkt þekkist í ýmsum löndum. Og til að setja það í eitthvert samhengi, virðulegi forseti, fékk ég af því að ég hef verið að kalla eftir því, það hefur ekki komið fram í nefndinni, meiri hluti viðskiptanefndar hefur ekki sýnt því áhuga að skoða Bankasýsluna í samhengi við eigendastefnuna. Ég skal gangast við því að ég er nokkuð forvitinn að vita hvað eigendastefna er og fyrir hvað hún stendur og hvað felst í henni. Ég aflaði mér því gagna sem ég er með hér sem eru eigendastefnur í einu nágrannalandanna, nánar tiltekið Svíþjóð. Þetta er eigendastefnan í Svíþjóð, hún er 74 síður. Ég skal gangast við því að hér mætti koma texta þéttar fyrir og hér er ein og ein mynd en þetta eru 74 síður. (Gripið fram í.) Já, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur finnst þetta stórskemmtilegt og það er lykilatriði að sjá hið jákvæða í lífinu.

Alvarleiki málsins er sá að við erum ekkert að fjalla um það sem við ættum að gera. Við settumst niður í sumar til þess að fara í hinar ýmsu bráðaaðgerðir og ég hélt að við hefðum lært af þeim mistökum sem menn eru sammála um að við gerðum, ein þau stærstu voru þau að við vöndum okkur ekki nægilega við lagasetningu og það snýr beint að okkur þingmönnum. Ég fullyrði það að þingmenn meiri hlutans eru ekki meðvitaðir um hvað þeir eru að búa til. Og ég fullyrði að nú sé unnið með þeim hætti að það er verið að reyna að afgreiða mál eins hratt og mögulegt er til að ljúka þinginu. Áhugi Samfylkingarinnar er nær eingöngu á eitt mál og það er að með góðu eða illu að samþykkja tillögu þess efnis að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Allt annað er aukaatriði.

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mál sem tengjast öllu atvinnulífinu. Nú getur vel verið, svo maður sletti aðeins, að menn hafi „grísað“ á einhverja góða lausn en þá hafa menn grísað á hana, því að hér hefur engin umræða farið fram um framtíðarsýn eða hvernig menn sjá þessum málum fyrir komið í framtíðinni. Ég vek athygli á því að það er núna við 3. umr. málsins sem fá menn þá stórkostlegu hugmynd að skella þessu eins og öllu öðru undir Bankasýslu ríkisins.

Ég held að það sé kominn tími til að ábyrgir aðilar innan stjórnar meiri hlutans dragi andann djúpt og skoði aðeins hvert við erum komin og átti sig á því hvað það þýðir ef við samþykkjum þessi mál eins og hér er lagt upp með. Ég vek athygli á því að við erum að setja 70–80% atvinnulífsins, kannski minna, alla vega 50% — ég er ekki með prósentuna — undir eina stofnun. Við erum að samþykkja eftir því sem ég best veit, við erum ekki búin að sjá það, en miðað við þær upplýsingar sem við höfum ætla menn að hafa eina eigendastefnu fyrir öll fjármálafyrirtæki.

Virðulegi forseti. Þetta er svolítið — þegar maður les hver stefna ríkisstjórnarinnar og þingmeirihlutans er — eins og maður hafi dottið inn á sýningu hjá Ladda og sé að hlusta á Martein Mosdal, þetta er ekki langt frá því. Það er ein stofnun með allt atvinnulífið, það er ein eigendastefna fyrir öll fjármálafyrirtækin, ein ríkisstefna, ein ríkisstofnun. Þingmenn Samfylkingarinnar eru svo spenntir að komast í umræðuna um ESB að þeir hafa ekki tíma í þetta en mig grunar að hv. þingmenn VG séu að láta gamlan draum rætast. Að vísu, svo að maður fari aðeins í söguna og skoði hver pólitísk fortíð þessara ágætu einstaklinga er, þá eru ansi margir úr gamla Alþýðubandalaginu í Samfylkingunni, þannig að þetta er kannski draumur fleiri aðila. En ég vonast til þess, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að þessir aðilar hugsi sig tvisvar um áður en við klárum þetta með þessari einu ríkisstefnu og einu ríkisstofnun í öllum málum.