137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[21:10]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil taka undir með mörgum þeim hv. þingmönnum sem hafa haft það á orði í umræðunni um þetta mál að það er með nokkuð þungum hug sem við ræðum þetta frumvarp vegna þess að það er jú ein birtingarmynd þess áfalls sem orðið hefur og um leið þeirrar stöðu sem upp er komin í íslensku atvinnulífi. Ég ætla að það sé engum þingmanni ljúft, hvort sem um er að ræða í stjórn eða stjórnarandstöðu, að leggja til þá leið sem hér er lögð til. Ég get þó tekið undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að auðvitað getur maður velt því fyrir sér hvort þeir þingmenn sem hafa bakgrunn í stjórnlyndum stjórnmálaskoðunum, sem í hjarta sínu hafa þá trú að það fari best fyrir þeim samfélögum þar sem miðstýringin er mest, að best sé að stjórnmálamenn og vel upplýstir og jafnvel alvitrir embættismenn taki ákvarðanirnar. Mönnum þykir það kannski ekki eins leitt og þeir láta. Þetta eru auðvitað getgátur og eitt er víst, og ég tala líka fyrir hönd flokks míns, að þetta er eitt af þeim frumvörpum sem erfitt er að taka afstöðu til með öðrum hætti en birst hefur í umsögnum okkar þingmanna og andstöðu okkar almennt við að ríkisvæða og miðstýringarvæða efnahagslíf okkar. Það má öllum ljóst vera, og ég mun koma að því síðar í máli mínu, hvaða alvarlegu afleiðingar það hefur fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs ef við tökum úr sambandi þann kraft sem fylgir framtaki og drift einstaklingsins. Ef við færum ákvarðanatökuna í ríkari mæli til hins opinbera skilar það sér alveg örugglega í lakari lífskjörum þegar upp verður staðið, lakari en þau ella þyrftu að hafa orðið í ljósi þess áfalls sem hér varð.

Þá að frumvarpinu. Ég nefni nokkrar greinar sem ég vil gera athugasemdir við. Í fyrsta lagi, frú forseti, er það 3. gr. frumvarpsins, um tilgang félagsins.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Félaginu er heimilt í undantekningartilvikum að kaupa lánskröfur og eftir atvikum eignarhluti í hlutaðeigandi atvinnufyrirtækjum.“

Ég verð að segja eins og er að ég geri mér ekki alveg grein fyrir hvað átt er við þegar sagt er að félaginu sé heimilt í undantekningartilvikum að kaupa lánskröfur. Hver er það sem leggur það mat á stöðu mála og fyrir hvern er það mat lagt? Hvað er átt við með þessu orði? Hvaða gildi hefur það? Ég leitaði eftir útskýringum á þessu í framhaldsnefndaráliti og í öðrum plöggum í málinu. Nú kann að vera að mér hafi yfirsést en ég hefði áhuga á því að heyra frá hv. formanni nefndarinnar hvað menn hafa hugsað sér, hversu vítt þetta hugtak er. Er þetta undantekningartilvik eða jafnvel einhvers konar merkingarleysa? Þá á ég við að raunverulega setji enginn takmörk á hvað það er sem félagið getur tekið sér fyrir hendur þegar kemur að því að kaupa lánskröfur eða eignarhluti í atvinnufyrirtækjum. Ég sakna þess að hafa ekki séð einhverja nánari skýringu á því og ef slíka skýringu er að finna einhvers staðar í textunum vildi ég gjarnan sjá hana. Það skiptir auðvitað mjög miklu máli þegar kemur að framkvæmd þessarar löggjafar hvernig menn skilja þetta hugtak, hversu víðtækt umboð þetta félag eða þessi stofnun hefur til þess að fjárfesta í skuldabréfum og eignarhlutum. Það er algert lykilatriði. Ef menn horfa á þetta þröngt setur þetta heilmikil takmörk en ef þetta er bara sett þarna og menn þurfa ekkert að útskýra það neitt frekar eða það fylgja ekki þessu neinar nákvæmari skilgreiningar hvað þessi undantekningartilvik þýða nákvæmlega gætu menn allt eins sleppt þessu orði, það hefur þá enga merkingu sem slíkt.

Í öðru lagi og í sömu grein, í lið c, er nefnt að rétt sé að ráðstafa eignum félagsins eins fljótt og auðið er, þó að þannig að tekið sé tillit til markaðsaðstæðna og það sé gert með gegnsæjum hætti. Ég fagna því að þetta ákvæði er í lögunum en um leið vil ég benda á að þegar menn þurfa að meta markaðsaðstæður getur það verið mjög flókið mál eins og sagan sýnir hvort markaðsaðstæður þá og þá stundina séu heppilegar til þess að selja fyrirtæki, það getur verið erfitt. Meðal annars er það snúið í slíku mati vegna þess að það kunna að vera rík rök af hálfu ríkisins fyrir því að losa hið opinbera út úr rekstri jafnvel þó að markaðsaðstæður séu með þeim hætti að ekki fáist hámarksverðmæti í ríkissjóð. En aftur á móti kunna hagsmunir þjóðarinnar allrar, efnahagslífsins alls, að kalla eftir því að slík sala fari fram þrátt fyrir að markaðsaðstæður séu ekki þær bestu þegar horft er á hámörkun á sölutekjum. Það getur einfaldlega verið mikilvægt bara til þess að auka aflið í efnahagslífinu að koma slíkum fyrirtækjum aftur í hendur einkaaðila þannig að þau fái þann kraft og þá drift sem slíku eignarhaldi fylgir. Ég vil taka þetta fram af því að ég held að það sé nauðsynlegt að þeir sem starfa eftir þessum lögum hafi það í huga þegar kemur að því, sem verður vonandi sem fyrst, að menn fari í það að selja þær eignir sem þetta félag fjárfestir í.

Síðan kem ég að þeim þætti sem auðvitað eðlilegt er að menn staðnæmist við, 4. gr., sem snýr að stjórn félagsins og framkvæmdastjóra. Ég verð að taka undir með mörgum hv. þingmönnum sem hnotið hafa um þetta að í fyrsta lagi er ekkert óeðlilegt að það sé eigandinn, og þá um leið fjármálaráðherrann, sem skipar í stjórn þessa félags. Í sjálfu sér er það ekkert óeðlilegt þegar um er að ræða félög sem ríkið er með á sinni könnu og eignarhaldið liggur hjá fjármálaráðherra, við sjáum það í mörgum öðrum dæmum. Það sem ég tel að við verðum að hafa í huga í þessu máli, og einnig hvað varðar Bankasýsluna, er að staðan sem upp er komin er algjörlega einstök. Hún varð til vegna hruns fjármálakerfisins og setur allt í einu upp í fangið á ríkinu alveg gríðarlegan fjölda fyrirtækja. Þá tel ég að hægt sé að færa rök fyrir öðrum sjónarmiðum hvað varðar hvernig fara á með stjórn slíks félags en bara þeim að fjármálaráðherrann eigi að skipa stjórnina.

Reyndar er gerð tillaga í framhaldsnefndaráliti meiri hlutans um að fjármálaráðherra sé heimilt að framselja eignarhlutinn til tilvonandi Bankasýslu ríkisins. Gott og vel, en í frumvarpinu um Bankasýslu ríkisins er gert ráð fyrir því að sami fjármálaráðherra skipi í þá stjórn. Það breytir því í engu þeim grundvallaratriðum að það er fjármálaráðherrann sem hefur töglin og hagldirnar hvað varðar þetta allt saman í gegnum Bankasýslu ríkisins. Ég er þeirrar skoðunar, og það á jafnt við um Bankasýsluna og um það frumvarp sem hér um ræðir, hið opinbera hlutafélag, að eðlilegt sé að við skoðum aðrar leiðir þegar kemur að því að skipa þessar stjórnir, að eðlilegra sé að Alþingi Íslendinga komi að slíkri skipan. Með því fyrirkomulagi sem stefnir í að óbreyttu er, eins og margir hv. þingmenn hafa lýst, allt atvinnulífið meira eða minna komið inn í opinbera stofnun með einum eða öðrum hætti en stjórn þeirrar stofnunar er skipuð bara af einum manni, hæstv. fjármálaráðherra. Við eðlilegar aðstæður þar sem um er að ræða venjuleg og eðlileg félög í eigu ríkisins er ekkert óeðlilegt við slíkt en þegar svona stór hluti af efnahagsstarfsemi þjóðarinnar er kominn á þetta stig tel ég að menn verði að athuga aðrar leiðir. Ég bind vonir við það áður en við ljúkum afgreiðslu þessara frumvarpa, um opinbera hlutafélagið og Bankasýsluna, að við finnum aðra og betri leið.

Síðan vil ég að lokum gera að umtalsefni þá hættu sem er fólgin í þessu öllu saman. Hún er sú að þegar svona mikið vald og um leið mikil ábyrgð er komin á herðar svo fárra manna, hversu góðir menn sem það nú eru, er hættan á því að mistök eigi sér stað í bankakerfinu og efnahagslífinu öllu aukin. Bankakerfi okkar Íslendinga hrundi og við erum búin að ræða það fram og til baka í þingsalnum hvað kom fyrir. En það er alveg nauðsynlegt að það kerfi sem við byggjum upp hafi ekki í sér fólgna of mikla hættu á því að það verði kerfislæg mistök, það er hætta á því þegar svona mikið vald er sett til mjög fárra einstaklinga. Það er kosturinn við hið dreifða vald, það er kosturinn við markaðinn, að fleiri hugmyndir og sjónarmið koma að málum sem tryggja að menn eru ekki fastir í einhverri einni ákveðinni kreddu sem smitar allt hagkerfið. Það er hættan sem fylgir slíkum stofnunum eins og þeim sem við ræðum nú.

Þess vegna skiptir miklu máli, ef þetta verður niðurstaðan, ef sú leið verður farin sem hér er verið að ræða ásamt Bankasýslunni, að við búum við þetta fyrirkomulag í sem skemmstan tíma. Hver ársfjórðungur og hver mánuður sem líður án þess að við komumst út úr slíku fyrirkomulagi dregur úr þróttinum í hagkerfinu og í raun og veru, þó að menn geti borið fram ágæt rök fyrir nauðsyn þess fyrirkomulags sem hér er, gerum við um leið okkur endurreisnina erfiðari. Þetta eru neyðarráðstafanir og því fyrr sem við komumst frá þeim því betra. Það er reyndar lykilatriði í því að þingheimur allur sé sér meðvitaður um að við eigum að kappkosta að komast sem fyrst út úr því kerfi sem verið er að smíða því að þetta kerfi er vont kerfi í eðli sínu. Það er vont vegna þess að það þýðir að stór hluti af atvinnurekstri þjóðarinnar er kominn í hendur hins opinbera og það er alvarlegt mál.

Að lokum, frú forseti, vil ég benda á að í þeirri breytingartillögu sem meiri hluti efnahags- og skattanefndar bar fram í framhaldsnefndaráliti er gert ráð fyrir að þingið muni síðan samþykkja lög um Bankasýslu ríkisins. Ég tel að það sé nauðsynlegt, komi til þess að þetta frumvarp verði samþykkt, að umræðu um Bankasýslu ríkisins sé þá lokið og málið afgreitt en með því er hæstv. fjármálaráðherra veitt heimild til að framselja eignarhlutinn inn í Bankasýsluna. Ef við erum ekki búin að ganga frá nákvæmlega hvernig Bankasýslan á að líta út og við samþykkjum frumvarpið eins og það er lagt til hér og síðan verða einhverjar slæmar breytingar á Bankasýslunni sem eru gegn vilja þingsins, gæti myndast óheppileg staða. Ég vil hafa þessi varnaðarorð uppi af því að ég held að menn geti vel komið því þannig fyrir við afgreiðslu mála á Alþingi að það myndist engin óþarfaóvissa (Forseti hringir.) eða villur sem hægt væri að komast hjá.