137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[21:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það að yfirlýsingar um lengd fundar eru ekki hárnákvæmar og verður að una við það. Ég geri ráð fyrir því og byggi það á nokkurri reynslu að ekki sé endilega hægt að kreista út úr hæstv. forseta nákvæmari yfirlýsingar í þeim efnum.

Hins vegar var annað atriði í svörum hæstv. forseta sem vakti athygli mína en það var óljós yfirlýsing um að hugsanlega yrði vikið frá dagskránni sem liggur fyrir fundinum í framhaldinu. Það getur skipt töluverðu máli fyrir þingmenn upp á það hvernig þeir skipuleggja vinnu sína hvort þeir eru hér í þingsal eða á skrifstofum sínum hvaða mál það eru sem tekin eru fyrir og í hvaða röð. Almennt ganga menn út frá því að sú dagskrá sem liggur fyrir þinginu haldi. Ef einhver áform eru um að víkja frá áður boðaðri dagskrá óska ég eftir því að hæstv. forseti upplýsi það (Forseti hringir.) með einhverjum fyrirvara þannig að menn geti brugðist við því.