137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs af því að ég vildi eiga orðaskipti við hv. þm. Helga Hjörvar, formann efnahags- og skattanefndar. Ástæðan er sú að ég er ekki algerlega sannfærður um að þingheimur viti hvaða mál við erum að afgreiða út úr þinginu. Þá er ég að vísa til þess hvaða umhverfi við erum að teikna fyrir íslenskt atvinnulíf. Umræðan hefur nær eingöngu farið í mjög mikilvæg mál eins og Icesave og er núna að fara yfir í umræðu um Evrópusambandið. En nú er verið að fara með miklum hraða, virðulegi forseti, með þrjú mál í gegnum þingið, þ.e. frumvarp um Bankasýslu ríkisins, frumvarp sem mun gefa möguleika á því að ríkisvæða sparisjóðina og frumvarp um stofnun opinbers hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

Grunnur að þessum málum öllum og sérstaklega bankasýslunni og því sem snýr að sparisjóðunum er eigendastefna sem þingið hefur aldrei fengið að sjá. En í örstuttu máli, virðulegi forseti, er þetta svona að við erum að setja nokkurn veginn allt íslenskt efnahagslíf, atvinnulíf undir eina stofnun, stofnun sem mun bera heitið Bankasýsla ríkisins. Ég endurtek, virðulegi forseti: Við erum nokkurn veginn að setja allt íslenskt atvinnulíf undir eina stofnun. Ég vil spyrja hv. þm. Helga Hjörvar: Telur hann að þetta sé leiðin okkar út úr kreppunni? Ég segi að það sé eins gott að forstjóri Bankasýslu ríkisins sem mun hafa í hendi sér nokkurn veginn allt atvinnulíf Íslands sé aðili sem taki réttar ákvarðanir. (Forseti hringir.) En ég vil fá að vita beint úr munni hv. þm. Helga Hjörvar hvort hann telji að þetta sé rétta leiðin, þessi miðstýringar- og ríkisvæðingarleið.