137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fjármálakerfi Íslands hrundi og það hrundi í fangið á ríkissjóði Íslands. Það er því einfaldlega óhjákvæmilegt að hafa stofnanakerfi á vegum ríkisins sem getur tekist á við það risavaxna verkefni. Lögð er áhersla á það af hálfu ríkisstjórnarinnar að koma að rekstrarhæfum atvinnufyrirtækjum og endurskipuleggja þau og taka ekki yfir fyrirtæki í eigu ríkisins eða ríkisvæða til lengri tíma atvinnufyrirtæki í landinu. Þetta er tímabundið ástand og auðvitað deilum við áhyggjum hv. þingmanns af því að ríkið þurfi að hafa svo stórkostleg afskipti af fjármála- og atvinnulífinu í landinu. Auðvitað væri langbest að það hefði sjálft kunnað fótum sínum forráð og komist í gegnum fjármálakreppuna en úr því að við þurfum að hlutast til um það er mikilvægt að við setjum inn stofnanir sem geta tekið á málum. Við förum hér að ráðum alþjóðlegra sérfræðinga í því að fást við fjármálakreppur, við erum m.a. að fara að ráðum Mats Josefssons. Í umfjöllun nefnda þingsins hefur verið tekið ríkt tillit til þeirra ábendinga um hvað megi betur fara í lagafrumvörpunum og í því máli sem tekið er fyrir á eftir, um endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja, held ég að hafi tekist býsna góð sátt um flest þau atriði sem það mál hefur að geyma. Ég treysti því að það muni leiða til farsældar bæði í fjármálageiranum og atvinnulífinu almennt.