137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Það er augljóst að við erum að skoða í rauninni allar stofnanir samfélagsins með endurskoðun á fjárlögum. Að vísu er fjárlaganefnd ekki farin í þá vinnu í smáatriðum heldur koma í tengslum við bandorminn þau markmið sem sett voru varðandi niðurskurð á þessu ári og í framtíðinni. Það er auðvitað ánægjulegt að heyra að menn skuli bera hag Alþingis fyrir brjósti og auðvitað gerum við það öll. Eftir sem áður skiptir gríðarlega miklu máli að Alþingi sýni gott fordæmi og beiti ráðdeild og hagsýni í öllu sem þar er gert og það hefur verið gert. Það er kannski það sem hv. þingmaður er að vísa til að það liggur fyrir samanburður á því hvernig útgjöld hafa þróast á liðnum árum hjá einstöku ráðuneytum samanborið við Alþingi. Að sjálfsögðu mun fjárlaganefnd skoða þennan samanburð og reyna að meta hver aukningin hefur orðið. Því má þó ekki gleyma að Alþingi fékk verulegar viðbætur á sínum tíma, m.a. með aðstoðarmannakerfinu hvort sem var við formenn stjórnarandstöðuflokkanna eða landsbyggðarþingmennina. Þetta hefur verið dregið til baka að hluta og er hluti af þeim sparnaði sem þingið hefur farið í. Laun alþingismanna hafa líka verið lækkuð, það er búið að draga verulega úr öllum utanlandsferðum, dagpeningum og öðru slíku. Ég held að við verðum aldrei undan skilin og verðum alltaf að sýna gott fordæmi. Það er einnig verið að skoða hvernig haga eigi framkvæmdum á Alþingisreitnum samanborið við einhverjar aðrar framkvæmdir. Það hvílir auðvitað á okkur sú ábyrgð að sýna þarna gott fordæmi en auðvitað verðum við að gæta þess að það grundvallarhlutverk sem Alþingi hefur verði varðveitt í öllum þessum niðurskurði eins og hver önnur grunnþjónusta þannig að Alþingi setji ekki niður gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það þarf auðvitað að skoða öll ráðuneytin og það verður gert við fjárlagavinnuna, bæði við fjáraukann fyrir þetta ár og við fjárlög 2010.