137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs til að ræða við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, formann viðskiptanefndar, um þá stöðu sem menn úti í virkilega lífinu standa frammi fyrir þegar þeir fara inn í bankana sína. Það er svo sem óþarfi að ræða það þegar allt viðskiptalífið hrundi hér og í fang ríkissjóðs eins og hv. þm. Helgi Hjörvar komst að orði fyrr í dag, að bankarnir og allt fjármálakerfið er komið í fang ríkisins undir stjórn eins eiganda. Við ræddum það í gær í umræðu um eignaumsýslufélagið og bankasýslu að það væri mjög mikilvægt að þar ríkti bæði gagnsæi og jafnræði. Því vil ég vekja athygli á og ræða um það við formann viðskiptanefndar hvort það sé réttlátt eða gagnsætt eða jafnræði þegar aðili sem rekur 4–5 manna fyrirtæki fer bankann sinn til að fara yfir lánamál, lán sem hann hafði þurft að taka upp á 16 millj. í erlendri mynt til að kaupa húsnæði yfir það fyrirtæki og er kannski komið í 35 millj. og ekkert óeðlilegt að fara þurfi í einhverja endurskoðun á því, að þá taki bankinn, í þessu tilviki Íslandsbanki og einn ríkisbankanna eftir því sem ég best veit, þannig í málaleitanina eftir talsverðan tíma að hnýta aftan í lánasamninginn breytingu sem er ákvæði til bráðabirgða á þá leið, með leyfi forseta, að sakir óvissu um fjármögnun áskilji bankinn sé einhliða rétt til endurskoðunar á vaxtakjörum lánsins til hækkunar, til breytingar á myntsamsetningu, t.d. að einhenda því yfir í íslenskar krónur og þar með í raun og veru kannski gera þetta litla fyrirtæki gjaldþrota. Mig langar að spyrja hv. þingmann, formann viðskiptanefndar, hvort hann telji þetta réttlátt, gagnsæi eða jafnræði og í ljósi þeirrar staðreyndar að allt kerfið er komið yfir til ríkisins hvaða réttlátari leiðir formaðurinn sjái á því hvernig við eigum að koma fram við þegna þessa lands og fyrirtæki.