137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[11:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar við gengum til atkvæða um þetta mál við 2. umr. þá leyndi það sér ekki að hjá ýmsum þingmönnum var óbragð í munni og heldur slakleg samviskan. Þá var vísað til þess að málið mundi sennilega batna þar sem því yrði vísað til meðhöndlunar viðskiptanefndar milli 2. og 3. umr. Það var haldreipið sem menn höfðu til að treysta sér til að greiða þessu frumvarpi atkvæði.

Nú liggur breytingartillagan fyrir, haldreipið mikla sem hér átti öllu að bjarga og ekki síst vondri samvisku. Hv. formaður viðskiptanefndar hefur lýst þessari breytingartillögu alveg réttilega sem lagatæknilegri hreingerningu. Málið hefur með öðrum orðum ekki batnað. Þetta er út af fyrir sig ekki tillaga sem er ástæða til að leggjast gegn. Hins vegar bætir hún ekki málið og gerir engum kleift í rauninni að styðja það sem hafði vonda samvisku gagnvart því við 2. umr. málsins.