137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[11:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við sjálfstæðismenn höfum stutt það dyggilega enda gerðum við það með neyðarlögunum og með þeim reglum sem við settum þegar við sátum í ríkisstjórn að sparisjóðunum yrði komið til aðstoðar og þeir endurreistir. Því miður var það ekki áhersla meiri hlutans og þrátt fyrir fögur orð þar um að menn vildu koma virkilega að því verkefni og leggja sérstaka áherslu á það þá er það ekki niðurstaðan í þessu frumvarpi.

Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson benti réttilega á að þetta væri orðin einhver lenska að þegar menn lenda í vandræðum með mál að segja að þau fari til nefndar milli umræðna og taki breytingum. Það var því miður ekki við því orðið. Þrátt fyrir að við höfum lagt okkur alla fram um að reyna að ná sátt um nauðsynlegar björgunaraðgerðir fyrir sparisjóðina í þessu máli þá hefur meiri hlutinn ekki viljað vinna þannig að málum og við (Forseti hringir.) getum þess vegna ekki gert annað en setið hjá í þessu máli.