137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[11:09]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál sem hér er verið að fjalla um er lagt fram af góðum hug og aldrei hefur nokkur maður dregið í efa að tilgangur þessa frumvarps sé sá að reyna að greiða fyrir því að bjarga sparisjóðakerfinu í landinu. Ýmislegt í þessu frumvarpi er auðvitað í þá áttina. Hins vegar eru ákvæði í frumvarpinu sem stefna í raun til gagnstæðrar áttar og þess vegna er ekki hægt að styðja frumvarp sem hefur yfirlýstan tilgang í eina áttina en vinnur svo í aðra áttina.

Það sem þetta frumvarp mun meðal annars hafa í för með sér er að það stefnir í mjög mikla lækkun á stofnfé sparisjóða út um allt land. Það mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir heimilin á þessum svæðum. Það mun hafa mjög alvarleg áhrif og afleiðingar fyrir sveitarfélögin á þessum svæðum. En umfram allt, og það er alvarlegast, það mun koma í veg fyrir að hægt verði að tryggja aukið stofnfé frá almenningi á þessum svæðum inn í sparisjóðina sem mikil þörf er á. Þess vegna (Forseti hringir.) vinnur þetta frumvarp gegn sínum eigin markmiðum og það er einsdæmi.