137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[11:14]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er mjög mikilvægt að þessi lagarammi um þá aðstoð sem sparisjóðunum stendur til boða til að endurskipuleggja sig komist á og verði skýr. Það er mikill misskilningur sem hér kemur fram að það sé markmið í sjálfu sér að ríkið gerist þátttakandi í rekstri sparisjóða í landinu. Það er ekki tilgangur þessa frumvarps heldur að setja skýrar lagareglur um það á hvaða grunni sú aðstoð standi sparisjóðunum til boða sem þeir geta sótt um ef þeir svo kjósa — og það hafa þeir reyndar flestir gert — til að reyna að endurskipuleggja rekstur sinn.

Um framtíðarsýn í þessum efnum vilja sparisjóðirnir væntanlega sjálfir eftir atvikum hafa einhver áhrif á það hvernig það landslag lítur út en ekki bara að það verði ákveðið ofan frá hér á Alþingi. Aðstoð verður ekki neydd upp á einn eða neinn heldur stendur hún til boða á þessum forsendum fyrir þá sem hana vilja nýta sér.

Framtíðarsýnin er mjög einföld. Hún er sú að heilbrigð sparisjóðakeðja verði hluti af okkar fjármálaþjónustu til framtíðar, vonandi sjálfstæð og á eigin forsendum og að aðkoma ríkisins að því til lengri tíma litið geti (Forseti hringir.) orðið sem minnst og helst innan fárra ára á nýjan leik engin.