137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[11:19]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er verið að innleiða heimild sem var fyrir hendi mun víðtækari í upphaflegri útgáfu málsins sem laut að því að fjármálaráðherra væri heimilt að framselja eignarhlutinn til óskilgreinds félags. Það er út af fyrir sig ánægjuefni að þetta sé í raun helsta álitaefnið sem eftir er í málinu og það hefur tekist góð samstaða um aðra þætti en um skipan stjórnarinnar. En ég vek athygli á því að hér er verið að fara að tillögum alþjóðlegra sérfræðinga sem komu okkur til ráðgjafar í okkar miklu erfiðleikum og sömuleiðis verið að fara að tilmælum Seðlabankans um að til sé einmitt aðili sem sé á milli hins pólitíska valds og þessa félags, sem sé Bankasýslan, og tryggi þannig það sem kallað er armslengd frá hinu pólitíska valdi.