137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[11:20]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Eins og hv. þm. Helgi Hjörvar rakti var ágæt samvinna í þessu máli framan af en leiðir skilur í þessari atkvæðagreiðslu því við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að það sé mikilvægt að faglega verði staðið að skipun stjórnar þessa opinbera félags eins og allra annarra.

Hér erum við að greiða atkvæði um breytingartillögu sem hljóðar þannig að fjármálaráðherra sé heimilt að framselja eignarhlut til Bankasýslu ríkisins. Ég velti fyrir mér tilganginum með þessari breytingartillögu því eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal rakti áðan þá er í raun, ef fjármálaráðherra nýtir sér þessa heimild, verið að fjarlægja ábyrgð hæstv. ráðherra af starfsemi þessa félags og það er þvert gegn því sem við höfum talað fyrir á undanförnum vikum og mánuðum um pólitíska ábyrgð. Þess vegna get ég ekki greitt þessari breytingartillögu atkvæði mitt og er á móti henni.