137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

gjaldeyrismál.

137. mál
[11:33]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara og fyrirvarar mínir snúa fyrst og fremst að því að við skulum þurfa að hafa þessi gjaldeyrishöft. Þeir snúa líka að þeim einkennilegu umsögnum sem við fengum með frumvarpinu þar sem umsagnaraðilar bentu á að þeir teldu mjög líklegt að við mundum þurfa að halda áfram með gjaldeyrishöft fram yfir sólarlagsákvæðið sem er í nóvember 2010. Síðan var bætt við að áfram yrðu glufur í gjaldeyrishöftunum, það yrðu alltaf klárir menn sem gætu fundið leiðir til að fara fram hjá þeim. Þeir sem fylgdu málinu eftir töldu að þetta mundi hafa lítil sem engin áhrif á gengi krónunnar. Þarna er hins vegar talað um refsiákvæði og mér finnst mjög eðlilegt að einhvern veginn sé hægt að koma í veg fyrir að fólk brjóti þessi lög ef við erum með lög í landinu. Gerð voru ákveðin mistök í fyrri lagasetningu þannig að ég get ekki staðið gegn þessari breytingu en hef miklar áhyggjur af því hvert við stefnum.