137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

breytingartillaga og umræða um ESB.

[11:43]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti hugðist gera grein fyrir þessu áðan þegar hún var stöðvuð vegna umræðna um fundarstjórn forseta og mun hún klára mál sitt áður en næsti þingmaður tekur til máls um fundarstjórn forseta. Forseta hafði borist beiðni um rýmri ræðutíma en þingsköp segja að gildi um umræðuna um 2. og 3. dagskrármálið, þ.e. ESB-tillögurnar.

Reglur þingskapa eru þær að við síðari umræðu um þingsályktunartillögur gilda sömu reglur og við 2. umr. lagafrumvarpa. Framsögumenn nefndarálita hafa 30 mínútur í fyrsta sinn, 15 mínútur í annað sinn og 5 mínútur í frekari ræðuhöldum. Aðrir þingmenn og ráðherrar hafi 20 mínútur í fyrsta sinn, 10 mínútur í annað sinn og svo 5 mínútur í þriðja sinn eða oftar. Með heimild 2. mgr. 55. gr. heimilar forseti að ræðutími talsmanna flokka í fyrstu ræðu verði tvöfaldaður miðað við reglur þingskapa.

Þetta var niðurstaða forseta hvað umræðuna varðar.