137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

breytingartillaga og umræða um ESB.

[11:46]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er líklega rétt að taka fram í upphafi að málið varðar fundarstjórn forseta vegna þess að forseti hefur komið töluvert við sögu í því hvernig haldið hefur verið á því máli sem hér kemur til umræðu og þeirri atburðarás sem varð til þess að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason setti fram gagnrýni sína áðan. Það er búið að vera átakanlegt að fylgjast með því hvernig haldið hefur verið á þessu máli. Það er svo sem ekki nýtt að þessi ríkisstjórn standi ekki við hin fögru fyrirheit um samráð og frelsi þingmanna til að greiða atkvæði samkvæmt samvisku sinni. En hvernig haldið hefur verið á þessu máli með alveg ótrúlegri óbilgirni og hörku annars stjórnarflokksins í garð hins og í garð þingsins er algerlega óásættanlegt. Og nú þegar menn tala mikið fyrir nýjum vinnubrögðum á þingi sýnir þetta mál á að sú er ekki þróunin, hún er þveröfug.