137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

breytingartillaga og umræða um ESB.

[12:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir það að virðulegur forseti hefur ákveðið að breyta ákvörðun sinni um lengd ræðutíma í dag. Ég held að það hafi verið afar skynsamleg ákvörðun enda hefði fordæmið sem gefið hefði verið í þessu máli verið afar slæmt með því að gera ekki meiri tilslakanir á ræðutímanum en upphaflega stóð til.

Í öðru lagi vil ég stíga hér upp til að segja að þegar samskiptum mínum við hv. þm. Ásmund Einar Daðason lauk í gær hugsaði ég með mér að það væri skiljanlegt að þingmaðurinn vildi ekki vera á þingmálinu, það væri skiljanlegt að ungur, nýr þingmaður hefði ekki kjark til að standa af sér þennan þrýsting. En þegar ég hlustaði á hann koma upp í ræðustól áðan rann auðvitað upp fyrir mér að hann er tíu sinnum kjarkmeiri en mig hefði nokkurn tíma grunað. Ég tek undir með hv. þingmanni um að það er í reynd meiri hluti fyrir því að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) um aðildarviðræðurnar. Þingið er skilið eftir eins og á jarðsprengjusvæði (Forseti hringir.) þar sem þingmenn, sérstaklega stjórnarliðarnir, vita ekki hvort þeir mega stíga eitt skref áfram eða til hliðar vegna þess að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) getur sprungið ef þeir stíga feilspor.