137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

breytingartillaga og umræða um ESB.

[12:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir það að hæstv. forseti tók þá skynsamlegu ákvörðun að hafa ræðutímann lengri. Í raun er það sjálfsagt mál og hefði aldrei átt að leggja upp með annað en að leyfa lengri gerð umræðna um þetta stóra mál.

Í öðru lagi hafa fallið hér stór orð um afstöðu manna og það er mikilvægt að árétta að þegar kemur að því að greiða hér atkvæði og taka efnislega afstöðu til mála er enginn þingmaður bundinn af neinu nema samvisku sinni. (Gripið fram í.) Slíkt þarf ekki að taka fram, sá réttur er stjórnarskrárvarinn. Enda kom það fram hjá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni að hann mundi að sjálfsögðu greiða atkvæði hvort heldur um málið eða breytingartillögur samkvæmt sinni sannfæringu. Það hefur engin samviskukúgun átt sér stað af einu eða neinu tagi. Það er annað mál hvort menn taka þátt í pólitískum gerningum og aðgerðum af því tagi þar sem línur skerast milli stjórnar og stjórnarandstöðu um aðgerðir en ekki afstöðu til mála.