137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:30]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég styð þá þingsályktunartillögu sem hér er til umfjöllunar á Alþingi um að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu og ég styð breytingartillögu meiri hluta utanríkismálanefndar í þeim efnum. Ég tel löngu tímabært að íslenska þjóðin fái að gera upp við sig á grunni aðildarsamnings og eftir aðildarviðræður hvort hún eigi heima í Evrópusambandinu eða ekki. Þetta er auðvitað byrjunin á því ferli að við sækjum um.

Ég er ákaflega sáttur við álit meiri hluta utanríkismálanefndar og tel að formaður hennar eigi hrós skilið fyrir góða vinnu og öll nefndin. Þetta er mjög ítarlegt álit. Hér er mjög skýrt kveðið á um þá meginhagsmuni sem Íslendingar eiga að hafa að leiðarljósi í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hér er skýrt kveðið á um það hvernig eigi að haga aðildarviðræðunum og ferli málsins og ég er mjög sáttur við það upplegg allt saman. En mig langar til að spyrja hv. formann utanríkismálanefndar (Forseti hringir.) út frá breytingartillögunni, hvort það sé þá ekki rétt skilið hjá mér að það verði þá á grunni þessa plaggs, meirihlutaálitsins, (Forseti hringir.) sem farið verði í aðildarviðræðurnar og samninganefndinni og framkvæmdarvaldinu séu þar með bundnar hendur samkvæmt því.