137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:34]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þetta mjög svo skýra svar. Það er alveg ljóst að samningsumboðið er mjög skilyrt fyrir þá nefnd sem mun semja fyrir okkar hönd. Þegar samningur er kominn kemur stóra stundin. Þá þarf þjóðin að taka afstöðu. Ég er sammála því sem kom fram í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, röksemdafærslu hans gegn tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er sammála þeirri röksemdafærslu. Að vísu vildi Framsóknarflokkurinn á sínum tíma fara í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var í maí 2008. Síðan féllum við frá því og það er ekki stefna flokksins í dag. Ég er sammála því að það þarf ekki að fara í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú stefna var uppi hjá okkur en er ekki sú stefna sem við fylgjum í dag miðað við flokksþingssamþykktir. Ég veit hins vegar að það eru önnur sjónarmið í mínum flokki og ég virði þau. En ég er sammála því að það er óþarfi að fara í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) þannig að ég mun ekki samþykkja slíka tillögu komi hún hér fram.