137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var einföld spurning en loðið svar. Ég spyr enn: Vill hv. þm. Árni Þór Sigurðsson ganga í Evrópusambandið og vera svo árið 2020 hluti af risastóru ríki? Vill hann það sjálfur? Ég var ekki að spyrja um hvað Vinstri grænir vilja. Ég var heldur ekki að spyrja um hvað utanríkismálanefnd vill svona að meðaltali. Ég var að spyrja um hvað hann vill sjálfur nákvæmlega. Vill hann núna, þegar Íslendingar liggja á hnjánum út af Icesave þar sem Evrópusambandið kúgaði okkur til að taka yfir ákveðna lausn, vill hann í þeirri stöðu ganga inn í þennan klúbb sem lemur okkur?

Svo spyr ég líka: Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér framtíðina? Evrópusambandið hefur þróast mjög hratt á síðustu 60 árum og það hættir ekkert að þróast þó Íslendingar gangi inn. Þetta verða Bandaríki Evrópu eftir 60 ár eða að það verður ekki lengur til og hvort tveggja er mjög slæmt fyrir Ísland ef við erum inni í því.