137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans orð um vinnuna á vettvangi nefndarinnar og ítreka þakkir mínar til hans og annarra þingmanna í hv. utanríkismálanefnd fyrir samstarfið. Það var talsvert rætt um þetta með hugsanlega skilmála eða skilyrði, fyrirframskilyrði og á fundum nefndarinnar var því nákvæmlega lýst með hvaða hætti viðræður við Evrópusambandið ganga fyrir sig. Það er sest að samningaborði og farið rækilega yfir löggjöf í hverjum einasta kafla fyrir sig og hún er borin saman og það er fyrst þegar sú vinna liggur fyrir og hefur farið fram sem unnt er að taka afstöðu til þess hver samningsafstaðan eða meginhagsmunirnir eru í viðkomandi málaflokki. Þess vegna er svo mikilvægt að tryggja samstarf á milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins í öllu ferlinu og því erum við að reyna að lýsa í nefndaráliti meiri hlutans og ég vona að það hafi komist skýrt til skila.