137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:35]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka formanni Sjálfstæðisflokksins fyrir innihaldsríka ræðu sem ég held að hafi staðið í a.m.k. klukkutíma. Að mörgu leyti varð ég var við milda afstöðu hans til Evrópusambandsins og hann lagði á það ríka áherslu að um málið væri samstaða og tek ég ofan fyrir þeirri nálgun.

Ég vil hins vegar leggja áherslu á það, af því að menn hafa verið að tala um tímafaktorinn í þessu máli, að mikilvægt er að horfa til atvinnulífisins og þeirra bráðaaðgerða sem þarf að grípa til. Ég vil sérstaklega benda á blaðsíðu 25 í nefndarálitinu þar sem vikið er að ERM II og hagsmunum okkar í gjaldeyrismálum. En þar sem tími minn er frekar knappur ætla ég bara að víkja að því að ég heyri það að Sjálfstæðisflokkurinn er enn þá í jarðsambandi við atvinnulífið í landinu. Þetta mál á ekki að snúast um pólitíska stundarhagsmuni eins og mér fannst umræðan fyrr í dag bera vott um. Þetta mál er miklu stærra en svo og þess vegna tek ég ofan fyrir þeirri nálgun sem kom fram í ræðu formannsins.