137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:36]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans hér. Mig langar aðeins í tilefni af því sem hann segir að víkja að einu, þetta mál er svo stórt að vöxtum og mikið að maður á auðvitað erfitt með að koma öllu að þó að hér sé klukkutími undir. Þegar rætt er um hagsmuni atvinnulífsins og mikilvægi þess að koma á auknum stöðugleika, sem er það sem ég tel að við stjórnmálamennirnir skuldum kannski íslenskri þjóð og íslensku atvinnulífi hvað mest, meiri stöðugleika í efnahagslífinu, þá er ekki hægt að láta hjá líða að benda á að þann stöðugleika fáum við fyrst og fremst með því að hegða okkur af ábyrgð og skynsemi við fjárlagagerð, rekstur ríkisfjármála og samþættingu stefnu Seðlabankans við ríkisfjármálin og fjármál sveitarfélaganna. Þegar við reynum að taka út of mikil gæði eins og við höfum gerst sek um á undanförnum árum, yfir of skamman tíma, leitar ástandið í átt til ójafnvægis. (Forseti hringir.) Ég hef ekki trú á því að Evrópusambandið eitt og sér sé nein galdralausn fyrir okkur í þessu, við megum ekki missa sjónar á því þrátt fyrir Evrópuumræðuna að ábyrgðin er fyrst og fremst okkar.