137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þeir eru auðvitað líka til margir á Íslandi sem halda því fram að Evrópusambandsaðildin ógni hagsmunum atvinnuveganna á Íslandi og þeir sem halda því fram starfa sérstaklega í sjávarútvegi. En vissulega er það svo fyrir margar atvinnugreinar að það er eftir ýmsu að slægjast með auknu samstarfi við Evrópusambandið. Ég tek undir með hv. þingmanni að það væri kannski fyrst og fremst í stöðugleika sem fengist með sterkari mynt, en á endanum er þetta hagsmunamat þar sem menn verða að leggja þessa hluti alla á vogarskálarnar.

Það er merkilegt við umræðuna á Íslandi um Evrópusambandið hversu lítið er rætt, eins og ég vék aðeins að áðan, um hugsjónirnar, um grundvöll Evrópusamstarfsins sem rekur flestar þjóðir til þess að ganga þar inn, hjartað er ekki til staðar í umræðunni, en menn tína hér til einstaka kosti og segja: Við viljum fara inn í Evrópusambandið út af þessu. (Forseti hringir.) Þetta ískalda hagsmunamat held ég að komi flestum Evrópusambandsþjóðum dálítið spánskt fyrir sjónir og hefur reyndar orðið að umtalsefni í fjölmiðlum þar.