137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:39]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Margt get ég tekið undir í ræðu formannsins og undir það tek ég að vinna nefndarinnar er bæði umfangsmikil og vönduð. Þarna er verklag og meginhagsmunir kortlagt með prýðilegum hætti, þjóðhagsleg áhrif lögð fram með nokkuð skýrum hætti, en formaðurinn spurði: Hvernig lítur mælingin út að lokum, hvernig er hagsmunamatið hverju sinni?

Hann nefndi sjálfur til sögunnar fyrr í vetur að þegar herinn fór og hinar miklu dýfur krónunnar eftir að hún hrundi um páskana í fyrra, hefði þetta hagsmunamat einfaldlega breyst og mælingin kallaði á að sótt yrði um aðild að sambandinu og þjóðin kysi í kjölfarið eins og hann orðaði það í fréttum einhverju sinni. Ég er honum hjartanlega sammála um þetta og þess vegna fann ég aldrei þá röksemd í ræðu hans að hagsmunamatið kallaði ekki á það akkúrat núna að við sæktum um aðild eins og hann sagði áðan og síðan færi samningurinn í umsögn þjóðarinnar í kjölfar samningsviðræðna.