137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:46]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Sé full pólitísk samstaða um það hér á þinginu að verja þá hagsmuni sem eru tilgreindir í áliti meiri hlutans þá fullyrði ég að það verður engin pólitísk samstaða um þann samning sem viðræðunefndin kemur heim með til Íslands vegna þess að það er algjörlega útilokað að allir þeir hagsmunir sem þar eru tilgreindir verði varðir í viðræðum við Evrópusambandið.

Það er þetta raunsæi sem ég er að kalla eftir hérna í umræðunni, raunsæi um það sem er raunhæft. Það er gott að skilgreina hagsmunina. Það vantar raunsæið í umfjöllunina um það hverju er hægt að ná fram og það vantar allt hjarta í þetta mál. Það vantar alla ástríðu fyrir því að ganga inn í Evrópusambandið. Hvar eru þeir sem vilja fara þarna inn á grundvelli þeirra hugsjóna sem Evrópusambandið stendur fyrir? Þeir láta ekki í sér heyra hér. Það sem menn tala um hérna er fyrst og fremst að þörf sé fyrir það í íslensku samfélagi að leyfa þjóðinni að fá samning til að kjósa um. Það er bara þannig.