137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:48]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Ég vil segja það í tilefni af þessum orðum hv. formanns nefndarinnar að þeir kunna að finnast hér einn og einn í þingsalnum. En ég finn ekki þessa breiðu samstöðu um þá ástríðu sem ég er hér að vísa til. Ég efast ekki um að með orðum mínum hef ég æst upp hérna einn og einn sem mun koma og lýsa ást sinni á Evrópusambandinu. En þessi ást er ekki úti í samfélaginu og hún er alveg greinilega ekki hér á ráðherrabekkjunum eða í ríkisstjórnarsamstarfinu og ég skynja hana ekki almennt hér í þingsalnum.

Þegar ég fer hins vegar til fundar við Evrópuþingmenn úti í Brussel, sem ég hef gert í starfi mínu á vettvangi Alþingis þá skynja ég þetta hjarta. Þá skynja ég þá sannfæringu sem menn hafa þar fyrir því að þetta sé staðurinn, að þarna eigi menn að ráða ráðum sínum, þarna eigi menn að koma saman og setja reglurnar sameiginlega.

En hér á Íslandi snýst málið um allt annað. (Forseti hringir.) Það snýst um ískalt hagsmunamat. Það snýst fyrst og fremst um íslensku krónuna. (Gripið fram í: Stundum ... eftir á.)