137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 2. minni hluta utanríkismálanefndar. Þrjú álit koma frá nefndinni og eins og komið hefur fram er ekki algjör einhugur meðal þeirra sem mæla með áliti meiri hlutans.

Í þessu stóra máli — og ég held að það hljóti að vera óumdeilt að þetta er stórt mál, líklega og að öllum líkindum eitthvert það stærsta sem Alþingi hefur nokkurn tíma fjallað um — var lögð gríðarleg áhersla á að málið yrði unnið þannig að ná mætti sem víðtækastri sátt og að sjónarmið sem flestra fengju að njóta sín og ef fara ætti í þessa vegferð þyrfti að gera það á sem breiðustum grunni.

Nú er ljóst að það hefur ekki tekist frekar en ýmislegt annað sem stjórnarliðar töluðu fyrir að ætti að byggja á breiðum grunni og sátt þegar núverandi stjórn tók við völdum. Í þessu máli er ekki við formann utanríkismálanefndar að sakast, hann hefur unnið mjög gott starf í nefndinni, sérstaklega hvað varðar Evrópumálin, og er óneitanlega í erfiðri stöðu tilheyrandi flokki sem hefur mjög afdráttarlausa afstöðu til Evrópusambandsins og tekur afstöðu gegn aðild Íslands að því, og formaður utanríkismálanefndar ítrekaði og áréttaði þá afstöðu flokks síns áðan. Það er þar af leiðandi erfitt hlutskipti að þurfa að koma á einhverju sem viðkomandi er sjálfur andsnúinn og flokkur hans, það verður að virða. En það er óneitanlega undarlegt að málið skuli bera að með þeim hætti að hér sitji ríkisstjórn sem skiptist algjörlega í tvö horn í þessu máli og skoðun annars flokksins virðist fullkomlega hafa orðið ofan á. Það er ekki bara í þessu máli, við sjáum þetta í raunar flestum málum sem voru áherslumál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fyrir kosningar að þeir hafa þurft að gefa eftir.

Lögð var mikil áhersla á það sem mótvægi við þessa niðurstöðu, þ.e. eftirgjöf Vinstri grænna í málinu, að menn skyldu fá að greiða atkvæði einungis eftir sannfæringu sinni í málinu og samvisku. Það hefur verið gert í flestum flokkum, held ég, menn hafa fengið algjört frelsi til þess að greiða atkvæði og tala eftir sannfæringu sinni og það á svo sannarlega við í mínum flokki eins og menn hafa þegar fengið að heyra. En eitthvað virðist vanta upp á þetta hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði eins og kom í ljós við upphaf þingfundar í dag og kemur reyndar í ljós þegar skoðað er hvað þingmenn þess flokks hafa sagt um afstöðu sína, annars vegar ítreka þeir að þeir séu andsnúnir aðild að Evrópusambandinu en sumir þeirra segjast þó ætla að styðja tillögu stjórnarinnar þar um.

Það er ekki bara samstarf innan ríkisstjórnarinnar sem er ekki alveg með felldu í þessu máli, það vantar mikið upp á að unnið hafi verið í þeirri samstöðu. Það hefur í raun gleymst að ná samstöðu og samvinnu við nánast flestalla sem ætti að ná samvinnu við í þessu máli ef frá eru taldir þeir sem kallaðir voru á fund nefndarinnar eða gáfu kost á áliti þar og höfðu í raun flestir þegar lýst skoðun sinni. Með þessu á ég við það að ekki er búið að vinna þá vinnu sem þurfti að vinna til þess að menn gætu lagt af stað í þessa miklu vegferð og margt af því er ítrekað í tillögu 54 sem svo er kölluð, þ.e. þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar varðandi Evrópumálin. Þetta hefur svo komið berlega í ljós á síðustu vikum aftur og aftur. Það kom á daginn að utanríkisráðherra var á ferðalögum til þess að kynna afstöðu Íslendinga til Evrópusambandsins án þess að hafa haft um það nokkurt samráð við formann utanríkismálanefndar, utanríkismálanefnd, hvað þá þingið.

Haldinn var fundur í Noregi nýverið, fundur EFTA-þjóðanna, þar sem kom berlega í ljós að vinnan út á við, samskiptin við þær þjóðir sem við eigum í hvað mestum samskiptum við og erum bundin hagsmunatengslum við, hafði ekki verið unnin. Það var í raun hálfvandræðalegt að mæta á fund með hinum EFTA-þjóðunum og komast að því að það hafði ekki einu sinni verið haft fyrir því að setja þessi lönd inn í hvað væri í vændum eða hvernig samskiptum við þessi ríki yrði háttað í framhaldinu. Það má eiginlega segja að það hafi gætt hneykslunar í málflutningi fulltrúa frá Noregi, Liechtenstein og Sviss þegar þeir undrandi lýstu því að Ísland væri í miklu samstarfi við þessi ríki EFTA, hefði tekið á sig skuldbindingar þar með þessum löndum, væri að semja um fríverslunarsamninga við Indland, Rússland, nýbúið að semja við Kína og svo birtust allt í einu Íslendingarnir þarna og segðust vera farnir án þess að hafa með nokkrum hætti reynt að ná einhverri samstöðu eða samvinnu við þessa bandamenn okkar í EFTA um það. Svona hefur þetta mál allt saman verið unnið.

Það kom mér þess vegna ekkert á óvart þegar fulltrúar Svisslendinga á þessum fundi áréttuðu það við Íslendinga að það væri mikilvægt að hugsa fram í tímann, taka langtímaákvarðanir og vinna þær vel í stað þess að láta stundarhagsmuni eða geðshræringu yfir ástandi sem vonandi varir ekki lengi ráða algjörlega för. Það er grundvöllur þess málflutnings sem stjórnarandstaðan hefur haft í þessu máli, flokkarnir hafa ekki verið sérlega andsnúnir aðildarviðræðum við Evrópusambandið og jafnvel margir innan stjórnarandstöðuflokkanna mjög hlynntir því að Ísland verði beinlínis aðili að sambandinu. En stjórnarandstaðan hefur lagt á það mikla áherslu að í þessu mikilvæga og gríðarlega stóra máli vinni menn vinnuna sína vel.

Eftir því sem nær hefur dregið þessum degi hefur komið betur og betur í ljós að aðalatriðið í undirbúningi málsins var ekki að vinna vinnuna vel og mæta vel búinn til leiks, aðalatriðið var að knýja málið í gegn með öllum tiltækum ráðum. Þetta birtist glögglega á fundi utanríkismálanefndar þar sem einn nefndarmaður leyfði sér að spyrja mjög eðlilegra spurninga, eðlilegra og sanngjarnra spurninga á borð við það hvað það mundi kosta að fara í aðildarviðræður. Þessi spurning hafði reyndar verið borin fram strax við upphaf vinnunnar og svar ekki þegar fengist. En við það eitt að nefndarmaður úr stjórnarliðinu skyldi spyrja þessarar eðlilegu spurningar, leita eftir nánari upplýsingum, varð uppi fótur og fit og fundi var frestað og svo var fundi aflýst og svo vissu nefndarmenn ekki fyrr en settur var fundur í gærmorgun og málið tekið út án umræðu um álit meiri hlutans, 40 blaðsíðna álit, og menn treystu sér ekki til að fara í umræðu um innihald þess. Það segir sína sögu um hvernig mál þetta allt saman er unnið og hverjar áherslurnar eru. Það er ekki gæfulegt að leggja upp í svona stórt mál með svona veganesti, ég tala ekki um þegar við höfum þegar séð af reynslunni hvað slíkt upplegg hefur í för með sér.

Ekki er hægt annað en að setja þetta mál í samhengi við hina margumræddu Icesave-samninga. Þar fengu menn ákveðin skilaboð frá þinginu um að fylgja viðmiðum sem kölluð eru Brussel-viðmiðin en niðurstaðan, þegar hún kom, hafði svo ekkert með þessi viðmið að gera. Samráð við þingið var ekki neitt, í rauninni var það neikvætt ef eitthvað er því að hæstv. fjármálaráðherra kom hér í pontu tveimur dögum áður en samningurinn var kynntur og fullyrti að viðræður væru ekki einu sinni hafnar og raunar væri málið ekki komið sérlega langt á veg. Svo var skrifað undir það samkomulag í skjóli nætur og reynt að halda því fram að þetta væri til fyrirmyndar í alla staði og raunar góður samningur. Því er ekki haldið fram lengur, og reyndar hefur ekkert staðist af því sem sagt var um Icesave-samningana, en þá er brugðið á það ráð að reyna að þvinga þingið og þjóðina til að fallast á samningana með hræðsluáróðri. Ráðherrar leyfa sér jafnvel að halda því fram að verði ekki fallist á þessa samninga verði Ísland að einhvers konar Kúbu norðursins eða Norður-Kóeru vestursins án þess að rökstyðja það með nokkrum hætti. Er þá ekki eðlilegt að menn óttist að sagan endurtaki sig í þessu máli, sérstaklega í ljósi þess að miðað við það upplegg sem hér er gert ráð fyrir, að málið verði á forræði utanríkisráðuneytisins og utanríkisráðuneyti Samfylkingarinnar skipi samninganefnd og haldi utan um málið í andstöðu vel að merkja við samstarfsflokk í ríkisstjórn, einhvers konar andstöðu, væntanlegri andstöðu, verðandi andstöðu, að menn hafi áhyggjur af hvað út úr því kemur? Telur einhver að það sé raunhæfur möguleiki fyrir Samfylkinguna að koma til Íslands og tilkynna það að það hafi bara ekki náðst samningar, Evrópusambandið hafi ekki verið tilbúið að gefa eftir varðandi grundvallarhagsmuni Íslands og þar af leiðandi hafi menn gefist upp á samningum?

Þetta er að sjálfsögðu óhugsandi í ljósi ekki bara málflutnings Samfylkingarinnar heldur þess að sá flokkur byggir alla sína pólitísku tilveru á því að Ísland gangi í Evrópusambandið svoleiðis að samningsstaða á þeim grunni er varla sérstaklega sterk. Evrópusambandið, rétt eins og samninganefndir Breta og Hollendinga í Icesave-málinu, gerir sér fyllilega grein fyrir því á hvaða forsendum samninganefnd Íslendinga mun koma til Brussel til þess að ræða um hugsanlegan aðildarsamning. Þeir gera sér grein fyrir því að sú samninganefnd verður ekki í aðstöðu til annars en að taka því sem að henni er rétt, svoleiðis að menn geta þá ímyndað sér hvort þessi ríki, sem voru svo liðleg við okkur á ögurstundu hjá okkur í Icesave-málinu eða hitt þó heldur, muni sýna okkur sérstaklega mikinn skilning og veita okkur, einu ríkja í Evrópu, miklar undanþágur frá þeim lögmálum og skilmálum sem Evrópusambandið byggist á. Ætli það sé líklegt að það verði sá viðsnúningur, sérstaklega ef málið er á forræði flokks sem öllum má vera ljóst að er ekki í aðstöðu til annars en að taka því sem að honum er rétt?

Hvaða niðurstöðu stöndum við þá frammi fyrir? Hún getur á engan hátt orðið góð, hvorki fyrir þá sem telja Íslandi best borgið innan Evrópusambandsins né aðra. Ef hér er komið með samning sem unninn er á þessum forsendum, samning sem er ekki óaðgengilegur en vænta má að allt kapp verði lagt á að sannfæra þjóðina um að verði að samþykkja til að Ísland verði ekki að Kúbu norðursins og óheftur hræðsluáróður settur í gang rétt eins og varðandi Icesave-samningana. Samþykki menn inngöngu í Evrópusambandið á þeim forsendum og samning við Evrópusambandið verður aldrei sátt eða friður um það í framhaldinu auk þess sem Ísland verður þá komið inn í Evrópusambandið á mjög óheppilegum forsendum og þá getum við ekki átt von á að hafa mikil yfirráð yfir náttúruauðlindum eða hafa mikið frelsi til að stunda matvælaframleiðslu eins og menn hafa þó verið nokkuð sammála um að séu grundvallarhagsmunir Íslendinga.

Ef samningurinn yrði hins vegar felldur, hvar stöndum við þá? Þá er búið að fara í langa, dýra og vonlausa vegferð við það að sækjast eftir aðild að Evrópusambandinu en án árangurs og hvert verður þá hlutverk Samfylkingarinnar í framhaldinu eða annarra Evrópusinna? Hvaða staða er þá upp komin? Að leggja af stað með þetta mál á þennan hátt er í rauninni engum gagnlegt og það ætti þess vegna að hafa verið lögð meiri áhersla á það að standa við þann vilja sem lýst var í orðum, að ná sem breiðastri sátt og samstöðu, og vinna þetta mál vel í stað þess að hengja sig í einhverjar dagsetningar af nánast þráhyggju og þvinga málið í gegnum þingið á fáránlega stuttum tíma miðað við umfang þess og þá miklu hagsmuni sem um er að ræða.

Það hefði þó mátt notast við þá leið sem Framsóknarflokkurinn hefur farið í Evrópumálum einmitt í þeirri stöðu sem nú er uppi í Evrópusambandsmálinu. Framsóknarflokkurinn hefur lengi rætt kosti og galla Evrópusambandsins og það eru skiptar skoðanir innan þess flokks eins og flestra annarra flokka. Á flokksþingi í janúar komust menn að niðurstöðu, sameiginlegri niðurstöðu sem mjög breið sátt og samstaða náðist um og hefði getað orðið ágætisuppskrift að mínu mati að uppleggi varðandi samskiptin við Evrópusambandið. Hún byggðist á því, eins og flestir þekkja, að farið yrði í aðildarviðræður við Evrópusambandið en með ákveðnum skilyrðum, að vissir hlutir yrðu ekki gefnir eftir. Ástæðan fyrir því að þetta er svo góð leið til þess að ná sátt og samstöðu um málið er sú að deilurnar um Evrópusambandið snúast ekki um það að menn leggi svo ólíkt mat á hverjir hagsmunir þjóðarinnar séu eða hvert mikilvægi þeirra er heldur að hversu miklu leyti hægt sé að verja þessa hagsmuni í samningaviðræðum við Evrópusambandið. Um það hafa menn deilt í a.m.k. 20 ár og reyndar lengur og ekki komist að nokkurri niðurstöðu. Það eru í raun meginrökin núna, þau rök sem stjórnin heldur helst á lofti fyrir því að farið verði í aðildarviðræður, að skera þurfi úr um þetta gamla deilumál hverju megi ná fram í viðræðum við Evrópusambandið.

En ef það liggur fyrir að þessir hagsmunir, sem við flest erum sammála um að séu grundvallarhagsmunir Íslands, hagsmunir sem ekki beri að fórna, hagsmunir sem meira að segja hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt áherslu á að eigi ekki að fórna, ef við leggjum í þetta með það sem skilyrði, ófrávíkjanlegt skilyrði sem fólk trúir raunverulega að staðinn verði vörður um, gætu bæði þeir sem telja að ekki verði hægt að verja þessa hagsmuni í samningum við Evrópusambandið sem og hinir sem telja að hægt sé að ná fram sérstökum ákvæðum eða undanþágum, sæst á viðræðurnar. En þetta er að sjálfsögðu háð því að menn trúi því raunverulega að vörður verði staðinn um skilyrðin.

Í áliti meiri hluta eru taldir upp allir þessir helstu hagsmunir sem ég hef hér fjallað um og nefnt að séu í raun tiltölulega óumdeildir, þetta séu þeir hagsmunir sem verði gætt í viðræðum við Evrópusambandið. Skárra væri það nú. Það segir sig sjálft að í samningaviðræðum muni menn gæta hagsmuna og þeir hagsmunir sem taldir eru upp í áliti meiri hlutans eru nánast óumdeildir og að taka það fram í greinargerð er því nánast óþarft. Það liggur algjörlega fyrir að ætli menn í viðræður muni ríkið að sjálfsögðu vilja standa vörð um sína helstu hagsmuni, ég tala ekki um þegar þeir hagsmunir eru nánast óumdeildir. Það vantar hins vegar trúverðugleikann, það vantar að fólk geti treyst því að skjaldborg verði slegin um þessa hagsmuni og þeirra gætt til hins ýtrasta. Lái mönnum hver sem vill að efast um það að menn verði í stakk búnir og tilbúnir til að standa við þessa hagsmuni þegar á hólminn er komið. Ríkisstjórnin hefur ekki staðið við margt af því sem heitið var varðandi samráð og samstöðu og ljóst er að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur gefið eftir nánast alla þá grundvallarhagsmuni sem hún talaði fyrir í kosningabaráttunni. Ég hef rakið hér fyrr í hvaða stöðu Samfylkingin er til að standa vörð um þessa hagsmuni. Hvers vegna ætti þá íslenskur almenningur að trúa því ef Samfylkingin fær umboð til þess að fara í þessar viðræður, óheft umboð, að menn muni standa vörð um þessa hagsmuni, að Vinstri grænir muni allt í einu taka á sig rögg og segja: nei, hingað og ekki lengra, eða að Samfylkingin muni malda í móinn þegar Evrópusambandið útskýrir að það sé ekki hægt að veita eftirgjöf gagnvart Íslandi?

Svo bætist það ofan á að farið er í þessar viðræður við þær aðstæður að Ísland er í efnahagslegum skilningi og raunar víðari skilningi á hnjánum. Menn þekkja allir stöðu okkar, um allan heim þekkja menn stöðu efnahagsmála á Íslandi. Þegar Ísland svo mætir til aðildarviðræðna við Evrópusambandið verður það að sjálfsögðu tekið með í reikninginn og menn gera sér grein fyrir því að samningsstaðan sé kannski ekkert sérstaklega sterk. Jafnframt gera menn sér grein fyrir því að Ísland sé líklega bara að sækja um aðild að Evrópusambandinu út frá skammtímahagsmunum vegna þess að landið telji sér best borgið efnahagslega, í ljósi þess hvernig fyrir landinu sé komið, með inngöngu í sambandið en ekki vegna þess að Íslendingar hafi raunverulega trú á þeim hugsjónum sem Evrópusambandið snýst um. Við höfum þegar séð umfjöllun í þessa veru í erlendum fjölmiðlum og það er óskemmtilegt að lesa það um Ísland til viðbótar við alla umfjöllunina um hvernig farið hafi fyrir landinu, að nú ætlum við að sækjast eftir aðild að Evrópusambandinu bara út frá sérhagsmunum okkar, bara til þess að redda okkur í þeim vandræðum sem við erum í akkúrat núna. Tímasetningin er því heldur ekkert sérstaklega góð.

Færu menn þá leið sem Framsóknarflokkurinn náði sátt um, að hafa skilyrðin á hreinu og vera tilbúnir að verja þau skilyrði en gefa þau ekki eftir, þá væri áhættan minni, þá gætu menn leyft sér að fara í viðræður og þá væri líka staða samninganefndarinnar sterkari. Þar af leiðandi ætti Samfylkingin að gleðjast yfir þessari tillögu og taka henni fagnandi vegna þess að ef samninganefndin færi út með þessi skilyrði þannig að menn vissu að ákveðna hluti mætti ekki gefa eftir, yfirráð yfir náttúruauðlindunum, möguleika okkar á að vernda fæðuöryggi þjóðarinnar, vernda fullveldi þjóðarinnar, þá væri staða samninganefndarinnar miklu sterkari. Hugsanlega mundi Evrópusambandið bara segja strax: Nei, þetta er ekki hægt, þessi skilyrði ykkar eru of stíf, og senda samninganefndina heim. Vonandi mundi það ekki gerast, ég tel að það mundi ekki gerast.

Þetta mundi því aðeins styrkja samningsstöðuna og þar af leiðandi vera kostur fyrir Samfylkinguna þegar út í viðræðurnar væri farið. Nóg var nú fjallað um þessi skilyrði Framsóknarflokksins þegar flokksþingið samþykkti þau á sínum tíma og sitt sýndist hverjum. Til þess var líka leikurinn gerður að sameina þá sem hafa ólíka sýn á það hverju hægt er að ná fram og hverju ekki. Sumir gerðu grín að því að þessi skilyrði væru svo stíf að ekki yrði til neins að fara í viðræðurnar, sendinefndin yrði send heim strax mætti hún með þessi skilyrði. Aðrir töldu skilyrðin þess eðlis að vel mætti ná þeim fram. Í þessu kristallast sá ólíki skilningur sem menn hafa á því hvað felist í viðræðum en jafnframt möguleikinn á að ná sátt með því að fara þessa leið. Ég held því að það hefði gagnast mun betur og mundi gagnast betur að nýta þessa leið en að fara með það upplegg sem hér er gert, að aðeins annar flokkurinn vilji ná samningum, hinn sætti sig við samningaviðræðurnar og þann kostnað og þá fyrirhöfn sem því fylgir en ætli síðan að berjast gegn niðurstöðunni þegar hún liggur fyrir, eins og var ítrekað nú síðast í málflutningi formanns utanríkismálanefndar sem ítrekaði það að flokkur hans áskildi sér rétt til þess að verða gegn samningunum en jafnframt ítrekaði hann að lagt yrði mikið kapp á það að ná sem bestum samningum. Til þess yrði endurskipulagt í ráðuneytum, varið í þetta fjármagni til að vinnan gæti verið sem best og mest, þannig að markmiðið er sem sagt að leggja í kostnað og endurskipulagningu stjórnsýslunnar til að ná sem bestum samningum til þess að geta svo í framhaldinu barist gegn þeim sömu samningum.

Þetta er allt saman hið undarlegasta mál og ég er dálítið hræddur um að þetta upplegg og þessi umræða muni ekki vera til að bæta ímynd Íslands á þeim alþjóðavettvangi sem öðrum stjórnarflokknum er svo hugleikinn, því að við verðum að hafa það hugfast að það er fylgst með því sem gerist á Íslandi, það er fylgst með umræðunni hér á landi. Við erum ekki einangruð, hvorki hvað varðar efnahagsmálin né hina pólitísku umræðu svoleiðis að menn munu vissulega gera sér grein fyrir því á hvaða forsendum verið er að fara út í þessa vegferð og hætt við að hún geri þá ekki annað en að framlengja niðurlægingu Íslands á þessum margumrædda alþjóðavettvangi.

Afstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessu máli hefur mikið verið rædd. Í upphafi þingfundar í dag var síðan endanlega staðfest hvers eðlis aðkoma vinstri grænna að þessu máli er, það er byggt á þvingunum, byggt á því að láti vinstri grænir ekki undan í þessu máli eins og öðrum geti menn ekki átt von á áframhaldandi stjórnarsamstarfi. Hræðsluáróðrinum er beitt grimmt og raunar beinum þvingunum.

Það var oft sagt um Framsóknarflokkinn, og sumir samfylkingarmenn rifja það enn upp þegar þeir lenda í hvað mestum vandræðum, að í flokknum hafi verið tiltekið flokkseigendafélag, lítill hópur manna sem gætti sérhagsmuna að mati þeirra sem telja þetta flokkseigendafélag hafa verið starfandi innan flokksins. Ég ætla ekki að leggja mat á það en ýmislegt í þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á Framsóknarflokkinn vegna starfa hans undanfarin ár á vissulega rétt á sér. Það voru teknar ákvarðanir af hálfu framsóknarmanna, leiðandi framsóknarmanna, sem ekki var sátt um í flokknum. Ákvörðun um að styðja hernað í Írak, fáránleg ákvörðun, algjörlega fráleit ákvörðun sem flokksmenn voru harðir andstæðingar þess að yrði gert. En þetta var keyrt í gegn. Menn fengu ekki að hafa þá skoðun sem þeir vildu á þessu máli, ákvörðun um hernað í Írak og jafnvel einhverjar ákvarðanir í efnahagsmálum sem menn voru ekki sammála þegar farið var of mikið í átt að frjálshyggjunni, voru keyrðar í gegn af afmörkuðum hópi. Þetta taldi ég vera eitthvað sem við vildum ekki sjá gerast lengur. Þess vegna er mjög leiðinlegt að fylgjast með atburðarásinni hjá vinstri grænum núna þar sem er kannski ekki flokkseigendafélag heldur flokkseigandi sem virðist ráða öllu í þeim flokki um afstöðu flokksmanna sinna jafnvel þó að afstaða hans, sem markast af samstarfsflokknum, sé algjörlega á öndverðum meiði við allt sem þessi flokkur vildi standa fyrir og sagði fyrir kosningarnar.

Ég vona að vinstri grænir geti lært af Framsóknarflokknum hvað þetta varðar. Framsóknarmenn vildu tryggja að svona yrði ekki haldið á málum. Á flokksþingi Framsóknarflokksins voru þau skilaboð send með mjög, mjög ótvíræðum hætti að hvað sem væri til í kenningum um flokkseigendafélag og sérhagsmunagæslu skyldi það heyra sögunni til. Þar af leiðandi þykir mér mjög dapurlegt að horfa upp á þróunina hjá vinstri grænum núna og ég vona að þeir hverfi af þessari braut og það sem gerðist við upphaf þingfundar í dag sé upphafið að því. En það sem gerðist við upphaf þingfundar í dag sýnir okkur kannski líka að þingið er einfaldlega ekki í stakk búið til að taka á þessu máli. Alþingi Íslendinga virðist ekki fá að njóta sín sem skyldi, þingmenn virðast ekki fá að greiða atkvæði eins og þeir helst vildu, eins og kom fram í málflutningi hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar. Þar af leiðandi hljótum við að velta því fyrir okkur hvort úr því sem komið er, í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin í þessu máli, eigi að ljá máls á því að þjóðin fái einfaldlega að skera úr um það hvort farið verði í aðildarviðræður eða ekki, hvort farið verði af stað í þessa miklu, kostnaðarsömu, erfiðu og vandasömu vegferð sem við erum þó þeirrar skoðunar að eigi að fara í en að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Við hljótum að velta því fyrir okkur, ekki hvað síst í ljósi orða formanns utanríkismálanefndar áðan sem hélt því fram að ástæðan fyrir því að farið yrði í viðræður við Evrópusambandið þrátt fyrir andstöðu flokks hans væri sú að kannanir bentu til þess að það væri ríkur vilji til þess meðal þjóðarinnar að fara í viðræður. Hvað segja skoðanakannanir um afstöðu þjóðarinnar til þjóðaratkvæðagreiðslna? Hvað segja skoðanakannanir um afstöðu þjóðarinnar til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort fara eigi í aðildarviðræður við Evrópusambandið? 80% þeirra sem tóku afstöðu telja að Íslendingar eigi að fá í þjóðaratkvæðagreiðslu að greiða atkvæði um hvort farið verði í aðildarviðræður. Þetta er þegar litið er fram hjá þeim sem taka ekki afstöðu og þótt þeir séu með eru um 76% þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að fá að greiða atkvæði um þetta mál. Fram hjá þessu er varla hægt að líta sé málflutningur stjórnarinnar byggður fyrst og fremst á því að það séu merki um það að vilji þjóðarinnar standi til að fara í viðræður.

Slík þjóðaratkvæðagreiðsla er óþörf að mati framsóknarmanna ef menn setja þau skilyrði sem ég fjallaði um hér í byrjun og þora að standa við þau. Þá geta menn með ólíkar skoðanir sameinast um það að fara í viðræðurnar og sjá til hvers þær leiða í trausti þess að menn muni standa vörð um þessa grundvallarhagsmuni. Sé þetta ekki til staðar, séu menn ekki tilbúnir að fara þessa framsóknarleið, hverju stöndum við þá frammi fyrir? Að hætta við? Nei, það er ekki góður kostur, ekki úr því sem komið er. Við viljum fá úr þessu skorið eða leyfa þjóðinni að taka ákvörðun um málið. Kannski er það ekki svo slæmur kostur geti menn ekki séð ljósið hvað varðar tillögu Framsóknarflokksins. Ég hvet þingmenn til þess að ræða þetta mál á málefnalegan hátt og sýna þjóðinni a.m.k. þá virðingu að gera ekki lítið úr vangaveltum um það hvort þjóðin eigi hugsanlega að fá að taka þessa ákvörðun frekar en þingið sem virðist ekki vera fært um það.